145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þegar maður fer að skoða þetta og bera saman við önnur lönd get ég sagt alveg eins og er að þá verð ég stundum reiður. Þá gæti hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagt að ég væri reiður. Á köflum er þetta svo aumingjalegt hjá okkur. Ég nefndi dæmi um íbúa þýsku eyjanna sem búa á eyjunum norður af strönd Þýskalands. Þar sér ríkið um að ókeypis er fyrir þá í ferjurnar til lands. Ferðamenn borga að sjálfsögðu ferjutoll. En íbúar með fasta búsetu á eyjunum fá einfaldlega frímiða. Tökum bara Grímsey, ef við viljum standa eitthvað við bakið á þeim. Það var eitt af því sem Grímseyjarnefndin lagði til og hefur ekki enn verið framkvæmt, að bæta samgöngur til eyjarinnar. (Gripið fram í: Því vorum við sammála.) Já. Af hverju er það ekki þannig að hver og einn íbúi Grímseyjar sem sannarlega er þar með fasta búsetu eigi rétt á t.d. sex til átta ókeypis ferðum í land á ári, eða að minnsta kosti mjög niðurgreiddum farseðlum í flug? Þannig að hann geti leitað sér lækninga og sótt þjónustu inn til Akureyrar eða þess vegna þegar hann er á leiðinni hingað suður eða til útlanda eða eitthvað svoleiðis. Þarna er aðstöðumunurinn svo himinhrópandi, og reyndar er það nú enn þá fyndnara innan sama sveitarfélags því að þetta er allt hluti af Akureyrarkaupstað, þá er svo aftur Hrísey með ókeypis í ferju fyrir sína íbúa. En Grímseyingar borga verulega hátt gjald bæði í ferju og flug og fá engar niðurgreiðslur nema þann ríkisstyrk sem vissulega er til flugleiðarinnar. En hann kemur ekki í veg fyrir að fargjöldin eru býsna há, svo sem eins og skiljanlegt er. Það kostar sitt að halda úti flugi á fámennan stað eins og Grímsey. Þarna gætu menn gert miklu betur. Til dæmis með því að niðurgreiða sérstaklega eða hafa ókeypis tiltekinn ferðafjölda á ári fyrir íbúana. Ferðamenn sem í stórauknum mæli streyma svo til Grímseyjar (Forseti hringir.) líka með fluginu núna þessi árin, þeir eiga að sjálfsögðu að borga kostnaðargjald. Þannig værum við að mæta þessum sérstöku aðstæðum fólks og jafna aðstöðuna. Jafna stöðu þessara landsmanna gagnvart öðrum.