145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum í gær að ekkert skyldi koma út úr fundi formanna flokkanna. En mér fannst hins vegar hæstv. forseti gera vel þegar hann sleit fundi vegna þess að allir sáu að ekki var fundarfært. Ég mundi vilja hvetja hæstv. forseta til að halda áfram málunum í sínum höndum og fresta hér fundum áfram. Það er ótrúlegt að hlusta á hv. þm. Jón Gunnarsson koma hér og tala eins og við höfum allan tímann í heiminum, eins og starfsáætlun Alþingis sé ekki fallin úr gildi, eins og hér séu margar vikur til þess að vinna mál og láta þau fara í eðlilegt ferli á þinginu. Það er ekki svoleiðis. Starfsáætlun er runnin út, það stendur upp á forustumenn stjórnarflokkanna á þingi að koma með þau mál sem þeir leggja áherslu á að klára, setjast niður og semja og á meðan það liggur ekki ljóst fyrir getum við ekki haldið áfram að tala hér í þessum sal.