145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:54]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja ræðu mína á því að þakka fyrir samstarfið í nefndinni og jafnframt að þakka fyrir þessa umræðu og lýsa yfir ánægju minni með að þingheimur skuli vera, a.m.k. þeir sem hafa talað hér á undan mér, sammála því að þetta mál skuli klárast fyrir kosningar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi framkvæmdaáætlun nái fram að ganga til þess að Vegagerðin hafi skýrara umboð til að vinna eftir þessu plaggi restina af þessu ári og fyrir næstu tvö ár.

Ég fæ skammtaðar 20 mínútur, þær eru fljótar að fara, og ég ætla að stilla ræðu minni þannig upp að ég ætla að byrja á að tala um það sem ég þekki best til, eða það kjördæmi sem ég kem úr. Ég sé svo til hvort ég þurfi að fara í aðra ræðu til að ræða almenn málefni og það sem snýr meira að öðrum kjördæmum og landinu í heild, eða hvort ég hafi tíma til að klára það.

Við fegnum fjölmarga umsagnaraðila. Ég held að það sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið að bæta í frá upphaflegu tillögunni sé ekki að neinu leyti óskalisti nefndarinnar. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur verið góð samstaða milli meiri hluta og minni hluta og landshlutasamtökin hafa hjálpað okkur gríðarlega með stefnumörkun sinni og forgangsröðun sem við erum í raun að fylgja. Við fylgjum stefnumörkun sem sátt er um innan hvers landshluta. Ég held að í fyllingu tímans ættum við að reyna að færa okkur frá þessu formi á því að afgreiða og vinna með samgönguáætlun, þetta ætti frekar að vera listi, hvað kæmi næst, þannig að ekki væri um að ræða kjördæmapot eða þingmannaslagsmál í nefnd eða þingsal heldur væri bara forgangslisti og forgangsraðað eftir umferðarmagni og umferðaröryggi.

Ég ætla að byrja á að tala hér um nokkra vegi. Í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, höfum við ekki farið varhluta af þeirri umferðaraukningu og þeim ferðamannastraumi sem hefur komið til landsins. Af öllum stöðum liggur það líklega þyngst á vegakerfinu í Suðurkjördæmi þar sem flestir farþegar koma um Leifsstöð og svo annaðhvort hingað á höfuðborgarsvæðið og svo inn í Suðurkjördæmi, eða megnið af þeim, og fara síðan eða jafnvel beint þangað. Þá liggur kannski beinast við að byrja á Reykjanesbraut, en umferðaraukning hefur verið alveg gríðarleg þar. Ef ég man rétt og er ekki að segja rangt frá þá hefur ekki orðið banaslys á Reykjanesbrautinni frá því að hún var tvöfölduð. Ég held að við ættum að horfa til þess á fleiri svæðum þar sem mikil umferðaraukning er. Við erum reyndar að vinna að því á þessum æðum út úr Reykjavík, á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi, að þetta verði vegir sem geti borið þá umferð sem er á háannatímum, sérstaklega yfir sumartímann. Við leggjum til í samvinnu við hópinn sem kallar sig Stopp – hingað og ekki lengra, sem vinnur að endurbótum á vegakerfinu frá Reykjavík að flugstöðinni og fram hjá bæjum á Reykjanesinu, að farið verði í bráðaaðgerðir sem eru hringtorg. Ráðist verður í það strax á næsta ári, og árið eftir verður farið í endurnýjun á Hafnavegi, það eru ekkert mjög dýrar framkvæmdir, upp á 100 og 200 milljónir, sem vonandi gera það að verkum að við sjáum ekki fleiri banaslys. En síðan er líka langtímaverkefnið að tvöfalda restina af kaflanum út úr höfuðborginni og að flugstöðinni. Einnig þarf að gera gatnamót sem eru þar á leiðinni hættuminni.

Ein góð framkvæmd er að klárast núna, það er breikkun á Hellisheiði frá Hellisheiðarvirkjun að Kömbunum. Það kláraðist núna 2016 og við tekur að breikka veginn milli Hveragerðis og Selfoss sem er gríðarlega hættulegur vegur, mjög fjölfarinn, mikið af afleggjurum og aðreinum, heim á sveitabæi, landbúnaðartæki, þungaflutningar — allt hefur þetta áhrif á umferðaröryggi og því alveg gríðarlega mikilvæg aðgerð að ráðast í og verður ráðist í hana á næstu árum. Vegagerðin er að byrja á henni. Í beinu framhaldi er ný Ölfusárbrú. Ölfusárbrúin eins og hún er núna er í stöðugu eftirliti. Hún er í mælingum af því að hætt er við því að hún þoli ekki þungaflutninga. Það er gríðarlega mikilvægt að við fáum nýja Ölfusárbrú austan við bæinn. Það styttir vegalengdir frá sveitunum austan við Selfoss til höfuðborgarinnar, en einnig er það mikið umferðaröryggismál að fá ekki þungaflutninga og aðra umferð, sem á ekki erindi inn í bæinn, inn í Árborg eða inn á Selfoss. Þar er hringtorg þar sem vörubifreiðar hafa oltið, reyndar ekki, eftir því sem ég veit best, eftir að hringtorgið var tvöfaldað. Ég veit ekki hve margar gangbrautir eru þarna á leiðinni, örugglega einar sex eða sjö gangbrautir, þannig að að mínu viti er augljóst að færa þjóðveginn út fyrir bæinn.

Þá leggjum við einnig til að því verði flýtt að ráðast í nokkra vegi í uppsveitum Árnessýslu. Þar er einnig gríðarleg umferð, eins og við vitum, út af aðdráttaraflinu sem það svæði hefur, samanber gullni hringurinn og fleiri fallegir staðir. Við leggjum til að settir verði fjármunir í Skeiða- og Hrunamannaveg, sem er mjög mikill ferðamannavegur, en einnig í Biskupstungnaveg. Það er bara til að breikka veginn, 60 milljónir, lítill peningur, og einnig að Reykjavegi verði flýtt, að ráðist verði í hann á næsta ári og hann kláraður 2018.

Ef ég færi mig talsvert austar komum við að einbreiðu brúnum sem ég tel vera eitt það hættulegasta sem við höfum í samgöngukerfinu. Þær eru enn þá 39 á hringveginum. Það sem er hættulegt við þær er að hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Oft eru ferðamenn að koma þar sem þekkja ekki aðstæður á Íslandi, jafnvel í snjókomu, myrkri, mæta hver öðrum, aðstæður ekkert sérlega góðar. Í ofanálag eru vegirnir að og frá þessum brúm grannir og því miður hefur aðeins skort upp á vegmerkingar og merkingar fyrir brýrnar.

Meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd leggur til, í samvinnu við minni hlutann, að 500 milljónir verði lagðar aukalega á hvort ár 2017 og 2018 sérstaklega í einbreiðar brýr. Hægt er að fjarlægja um tvær til þrjár brýr fyrir 500 milljónir, eða fjórar til sex á þessum árum eftir umfangi þeirra, eftir því hvort sett verða ræsi eða hvort það þurfi stein- eða stálbrú, hvort færa þurfi veglínur með tilheyrandi framkvæmdum í kjölfarið eða hvað. Með þessari milljarðaaukningu næstu tvö ár er það von okkar í umhverfis- og samgöngunefnd að hægt verði að taka fjórar til sex einbreiðar brýr af hringveginum og Vegagerðin mun að sjálfsögðu velja þær eftir því hvar fjármunirnir nýtast best með tilliti til umferðaröryggis.

Mér finnst að við eigum að leggja kapp á það að einbreiðu brúnum verði útrýmt. Mín uppáhaldsframkvæmd í þeirri áætlun er um Hornafjarðarfljót þar sem vegurinn mun styttast talsvert. Þar verður gerð almennileg tveggja akreina brú og hún leysir af hólmi þrjár einbreiðar brýr. Ég man ekki nákvæmlega á hvaða ári hún er áætluð, en ég held að það sé 2017 eða 2018.

Ég er líka gríðarlega ánægður með þá athygli sem hafnir landsins hafa verið að fá. Ef ég nota enska orðaslettu, með leyfi forseta, þá eru hafnir mjög ó-sexý. Þær sjást ekki mikið, þetta eru dýr mannvirki en gríðarlega mikilvæg. Þær eru mikilvægar fyrir inn- og útflutning, þær eru mikilvægar fyrir næststærstu atvinnugreinina okkar. Við höfum reynt að leggja áherslu á það og þessi samgönguáætlun ber þess aðeins merki. Í mínu kjördæmi og reyndar á fleiri stöðum er stálþil orðið gamalt, yfir 40 ára, farið að verða götótt og orðið hættulegt. Ég held að tími sé kominn á það að við gerum meiri skurk í því að viðhalda og byggja upp hafnir landsins.

Að öðrum höfnum ólöstuðum held ég að eitt arðbærasta samgöngumannvirki sem við getum ráðist í sé höfnin í Þorlákshöfn. Fyrir mjög litla peninga er hægt að stækka hana gríðarlega mikið, taka á móti skipum sem eru allt að 180 metrar að lengd, sem opnar gríðarleg tækifæri fyrir Suðurland og suðvesturhornið í út- og innflutningi. Í kringum Þorlákshöfn er mjög gott mikið landsvæði og fundið hefur verið út að þetta getur stytt tímann á markað með skipaflutningum um allt að 18 tíma. Í því liggja bein verðmæti.

Af því að ég er kominn í hafnirnar og Þorlákshöfn kemst ég ekki hjá því að fjalla aðeins um breytingartillögu sem Vilhjálmur Árnason er skrifaður fyrir, en kemur að mínu viti frá ríkisstjórn, frá meiri hlutanum, en hún snýst um að ráðast í útboð og smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju. Ég skal viðurkenna það hér að ég hef verið tregur til í þessu máli, en það hefur verið af áhuga á málinu og til að bæta það, af því að þegar við erum að ráðast í framkvæmd upp á 3,6 milljarða fáum við ekkert margar tilraunir. Ég held því að það sé gríðarlega jákvætt skref að verið sé að bjóða út Vestmannaeyjaferju. Innan fárra ára verður vonandi tekin í gagnið ferja sem getur þjónað Vestmannaeyingum betur, því að eins og þeir hafa sjálfir sagt og ég tek undir þá er hún þeirra þjóðvegur, þjóðvegurinn til Vestmannaeyja.

Mig langar á þeim stutta tíma sem ég á eftir að fjalla um tvennt í viðbót og í leiðinni að mæla fyrir breytingartillögu við samgönguáætlun á þskj. 1680. Hún hljóðar upp á að settir verði fjármunir í rannsóknir við Grynnslin við Hornafjörð, 20 milljónir hvort ár 2017 og 2018. Það er gríðarlega mikilvægt að halda þessu áfram. Þó að rannsóknir hafi staðið í yfir 20 ár þá er mikilvægt að vita hvernig ströndin og sjórinn hagar sér. Í framhaldi þarf að ráðast í framkvæmdir.

Það er bara eitt sem bíður Hornafjarðar, 2.000 manna samfélags, ef Grynnslin lokast eins og útlit var fyrir síðasta vetur eða þarsíðasta vetur þar sem stærri skip voru hætt að geta siglt inn og út úr höfninni; Hornafjörður yrði brothætt byggð. Ég held því að það sé gríðarlega mikilvægt að halda þessum fjármunum inni, klára þessar rannsóknir þannig að þær hafi samfellu, þær týnist ekki úr í tímaröð. Einhvers staðar verðum við síðan að setja punktinn og fara að gera tilraunir með framkvæmdir.

Að lokum langar mig til að koma inn á eitt atriði í langtímaáætluninni. Ég hef ekki náð að gaumgæfa hana alla. Þá vil ég sérstaklega nefna jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Ég held að miðað við þann texta sem er í langtímaáætluninni, 12 ára áætluninni, af því að langtímaáætlun verður ekki samþykkt hér fyrir kosningar, þurfi að flytja málið aftur þegar nýr meiri hluti og ný umhverfis- og samgöngunefnd tekur við, á meðan fer þetta mál aftur upp í innanríkisráðuneyti. Ég beini þeim skilaboðum til þess ráðherra sem mun stýra innanríkisráðuneytinu þá, eða til þess fólks sem er að vinna að samgönguáætlun, ef það er að hlýða á mig hér, að orðalag verði lagað þar sem talað er um jarðgöng undir Reynisfjall. Nú er talað um jarðgöng við Gatnabrún við Reynisfjall. Gatnabrún er annar staður en þar sem veglínan mun koma til með að liggja. Veglínan hefur verið samþykkt í aðalskipulagi og hefur farið í gegnum tvennar kosningar í Mýrdalnum, þannig að ég harma það hversu illa þetta er orðað í áætluninni. Ég held að lag sé að bæta úr því áður en þingið fær málið til efnislegrar umfjöllunar.

Ég mundi einnig vilja bæta því við að þó að þessi jarðgöng séu á þriðja tímabili, rannsóknarfé sé á þriðja tímabili, sé ekkert í vegi fyrir því að hefja rannsóknir strax því að þessi göng eru stutt og sérlega vel fallin í einkaframkvæmd, við þurfum meiri innspýtingu fjármuna inn í samgöngukerfið okkar. Ef tækifæri er til þess að knýja einkaframtakið til að bæta samgöngur, auka umferðaröryggi — þeim sem búa í Vík, öllum sem ég hef talað við, finnst það vera mikið öryggismál. Þar kemur annar mest ekni fjallvegur landsins, sá eini sem meira er ekið um er Hellisheiðin, og láglendisvegur út fyrir bæinn og þetta er gríðarlega mikið öryggismál. Ég vil mælast til þess að rannsóknarfé verði sett á fyrsta eða annað tímabil og síðan verði það metið hversu framarlega í röðinni á jarðgangaáætlun þessi framkvæmd eigi að vera, eða hvort fara eigi út í hana með aðstoð einkaaðila. Síðustu 30 sekúndurnar nota ég til þess að lýsa yfir ánægju minni með að við bættum 150 milljónum við í sjóvarnir í Vík, tvöfölduðum það. Síðasta vetur varð ströndin þar illa leikin af veðri og úthafinu.

Virðulegi forseti. Ég held ég þurfi að setja mig aftur á mælendaskrá þar sem ég er bara búinn að fara yfir eitt kjördæmi.