146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér hefði þótt hæstv. heilbrigðisráðherra eiga að vera meira afgerandi í þessu máli sem er flutt í þrettánda skiptið. Hæstv. ráðherra er búinn að vera þingmaður í nokkur ár þar sem þetta mál hefur verið til umfjöllunar og ég reikna með að hann hafi kynnt sér allar þær umsagnir frá fagaðilum sem hafa legið fyrir í þessu máli. Landlæknisembættið hefur varað við þessu, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við auknu aðgengi sem og allir fagaðilar í þessum málaflokki á Íslandi, foreldrasamtök og aðrir. Mér finnst mjög dapurlegt að á þessu stigi geti ráðherra ekki sýnt þann dug að stíga fram og lýsa samstöðu með öllum þessum fagaðilum, lýðheilsusjónarmiðum og landlæknisembættinu og leggjast gegn þessu frumvarpi. Ég hefði viljað sjá þann kjark koma fram hjá hæstv. ráðherra. Kannski kemur hann í seinna svari hjá honum. Mér finnst ómögulegt að þurfa að bíða (Forseti hringir.) og sjá til hvað þessir sömu aðilar segja aftur. Við vitum sjónarmið verslunar og heildsala í þessu máli. En hin sjónarmiðin vega miklu þyngra og ættu að gera það gagnvart heilbrigðisráðherra landsins.