146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Eitthvað held ég að hugarheimur hv. þm. Brynjars Níelssonar sé einfaldari en raunveruleikinn. Það er lagalegur ágreiningur er um þetta mál. Landlæknir vill að það sé skilgreint á ákveðinn hátt. Sé farið eftir því þarf hæstv. ráðherra að gefa út starfsleyfi. Þetta er ekki svona einfalt, hv. þm. Brynjar Níelsson. Mér finnst alveg fráleitt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera hér til svara. Þetta er risastórt mál. Ég er einn af þeim þingmönnum sem reyndu að knýja fram skýr svör á sínum tíma, 23. mars sl. Ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega út í hvort starfsemin rúmaðist innan núverandi samnings en fékk engin svör.

Mér finnst líka alvarlegt hvernig hæstv. ráðherra eða ráðuneyti virðist tala við landlækni. Í yfirlýsingu landlæknis segir, með leyfi forseta:

„Svar ráðuneytisins var á þá lund að umræðan hefði einungis snúist um hvort leitað yrði til Klíníkurinnar um þátttöku í svokölluðu biðlistaátaki.“ (Forseti hringir.)

Þetta er einfaldlega rangt. Umræðan hér 23. mars snerist ekki eingöngu um þetta blessaða biðlistaátak. Sjálfur vék ég ekki einu orði að þessum biðlistum. Hér er landlækni sagt rangt frá. Það er býsna alvarlegt mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)