146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi málflutningur hæstv. ráðherra hrynur þegar það er skoðað að hann leggur til þessa einu breytingu í þessu eina sveitarfélagi. Þar á allt í einu að auka lýðræðið svona gríðarlega með því að færa valdið til borgarfulltrúanna. Af hverju leggur ráðherrann þá ekki til breytingar á öðrum þröskuldum? Af hverju ekki að sveitarfélag sem er rétt skriðið yfir 10.000 íbúa þurfi ekkert að fjölga í 11–15? Væri það ekki alveg eins mikil aukning á lýðræðinu? Eða að sveitarfélag sem er að skríða yfir 2.000 íbúa þurfi ekkert endilega að fjölga í 5–7? Það verður að vera eitthvert samræmi í hugsuninni í gegnum það að menn hafa fyrir lifandi löngu sett í lög ákveðna ramma um það að eftir því sem sveitarfélögin eru stærri og fjölmennari sé eðlilegt að sveitarstjórnin sé breiðari, fjölskipaðri. Það er bara alveg eðlilegt.

Eins og hér var bent þá er það orðið mjög skrýtin staða að í Reykjavíkurborg skuli vera kjörnir 22 alþingismenn en bara 15 borgarfulltrúar. Það er mjög sérstakt þegar maður fer að hugsa um það. Þetta myndi þá þýða að óbreyttu að það skriði rétt yfir þann fjölda sem kjörnir eru hér þingmenn á svæðinu.

Ég sakna þess líka að hæstv. ráðherra skyldi ekki opna aðeins betur inn á tilurð málsins. Það er enn dálítið þokukennt. Hann sver það af sér, hæstv. ráðherrann, að þetta sé sérstakt áhugamál hans. Voru þetta embættismenn í ráðuneytinu? Nú er augljóst mál að hvergi utan ráðuneytisins er upplýst um að neinn hafi beðið um þetta. Var það ritari ráðherra? Var þetta bílstjórinn? Hver er svona áhugasamur um þetta í innanríkisráðuneytinu ef það er ekki ráðherrann sjálfur? Ég held við verðum að fá aðeins betri skýringar á því.