146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[14:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í heildina tekið felur þetta mál í sér pólitíska ákvörðun um að greiða fyrir aðgangi efnafólks að ódýrri erlendri fjármögnun sem ekki mun standa öðrum til boða og getur orðið á kostnað annarra í samfélaginu, því að hún getur haft áhrif bæði á fjármálastöðugleika og gengisstöðugleika. Minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, eins og hv. þm. Smári McCarthy og Lilja Alfreðsdóttir fóru yfir hér í máli sínu, leggur til breytingartillögur sem við teljum að bæti málið. Við vonumst til að hv. þingmenn meiri hlutans taki mark á þeim varúðarorðum sem við höfum mælt í þessu máli. Að öðru leyti leggjumst við gegn málinu verði þær breytingartillögur felldar.