148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staldra við þau orð hv. þingmanns að íslenska ríkið sé að missa Arion banka úr höndunum. Mig langar að ganga aðeins á eftir því að hv. þingmaður útskýri hvað átt er við með þessu. Ég man þetta þannig að við hv. þingmaður, sem þá var forsætisráðherra, höfum á sínum tíma kynnt hér gríðarlega viðamiklar aðgerðir sem sneru að þrotabúum gömlu bankanna; að við höfum hér á Alþingi gengið frá stöðugleikaskatti á slitabúin sem síðan var hægt að koma sér undan með því að undirgangast mjög ströng stöðugleikaskilyrði. Í tilviki þess fyrirtækis sem er í raun og veru forveri Arion banka þurfti viðkomandi fyrrverandi banki að gera hið sama og hinir, að undirgangast mjög ströng stöðugleikaskilyrði, sem fólust í því að undirgangast fjársópsákvæði, að gefa út skuldabréf upp á rúma 80 milljarða og öll þau skilyrði sem um það fjölluðu hvernig greiða mætti og ætti inn á skuldabréfið til uppgjörs við ríkið; fjársópsákvæðið átti síðan að sópa upp alls konar óvissueignum beint inn á ríkisreikninginn.

Allt þetta kynntum við hv. þingmaður, í sameiningu í raun og veru, og ég a.m.k. var fyrir mitt leyti nokkuð ánægður með hvernig til tókst, enda er hægt að halda því fram að verulegan hluta þess efnahagslega ávinnings sem við horfum fram á í dag, þegar við bæði skoðum stöðuna í rauntölum en eins líka þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir, megi að verulegu leyti rekja til þessara aðgerða.

Mér er hins vegar óljóst hvernig íslenska ríkið er að missa Arion banka frá sér vegna þess að ríkið er ekki með Arion banka. Við höfum haft ákveðinn eignarhlut í Arion banka frá árinu 2009 og höfum áskilið okkur verulega ávöxtun af því eiginfjárframlagi sem þar var lagt inn. Ég sé ekki betur en að það sé (Forseti hringir.) allt að skila sér ágætlega.