148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég get einmitt séð fyrir mér svipaða grein og þetta þar sem að jafnaði skuli allt óreglulegt einskiptisfjármagn veitt til arðsömustu verkefnanna í hvert skipti. Það gæti verið uppbygging Sundabrautar eða göng á Vestfjörðum eða á Austfjörðum eða hvað sem það nú er. Hins vegar er það svo að við erum ekki með nein gögn um það hvað eru arðbær verkefni sem við ættum að hafa auðveldan aðgang að sem þing. Augljósasta dæmið er því einmitt niðurgreiðsla skulda. Það er svo auðvelt að reikna út arðsemina af því, það er mjög auðvelt að detta í það. Hitt er mun erfiðara og krefst aðeins meiri undirbúnings en að sjálfsögðu ættum við líka að fara í það.

Jú, það gæti alveg vel verið. Aukin afkoma hins opinbera er, samkvæmt umsagnaraðilum, eitthvað sem kallað er eftir. Mér sýnist að það myndi muna um 5 til 6 aukamilljörðum eða svo fyrir árið 2018 upp á afkomu milli 1,4 og 1,6 ef (Forseti hringir.) þú getur staðfest það. Með ýmsum öðrum leiðum er kannski samt hægt að ná þessari aukningu (Forseti hringir.) í mennta- og heilbrigðiskerfum sem við stefnum að, en þá bara, eins og hv. þingmaður sagði, með aukinni gjaldheimtu.