148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hefði viljað hvetja hæstv. forseta til að sjá til þess og ræða það við formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins að nefndin verði kölluð saman til fundar. Sá fundur má fyrir mér vera haldinn þrátt fyrir að þingfundi sé haldið hér áfram, en ég tel að það sé mjög mikilvægt að nefndin fái fulltrúa sveitarstjórnarráðuneytisins og helst ráðherrann á sinn fund til að kanna afstöðu ráðuneytisins til þeirrar yfirlýsingar sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér í morgun.

Ég tel nauðsynlegt að fara yfir þetta, ekki síst í ljósi þeirra ummæla sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson viðhafði hér fyrr í dag þar sem hann sagði: Ja, ég held hitt og þetta og ég vildi gjarnan fá betri upplýsingar, t.d. frá þeim sem þurfa að uppfæra kosningakerfið, um hversu mikið þetta er. Menn eru bara að taka afstöðu í mjög stóru máli á grundvelli þess að þeir halda hitt og þetta og kalla eftir meiri upplýsingum.

Ég held að það sé nauðsynlegt (Forseti hringir.) að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái sérfræðinga úr dómsmálaráðuneytinu sem þurfa að bera þessa vinnu ásamt sveitarstjórnarráðuneytinu til fundar við sig til að fara yfir þessi mál. Það er ekki hægt að fara um þetta mál þeim höndum (Forseti hringir.)og með þeim málflutningi sem maður verður vitni hér að. Það er alveg ljóst. (Forseti hringir.)Við erum við þannig aðstæður í þinginu núna og þurfum að flýta okkur aðeins hægar. (Forseti hringir.)Þess vegna segi ég að fundurinn í nefndinni má mín vegna vera haldinn á meðan þingfundur heldur hér áfram.