148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður ræðir hér þá hafa orðið umtalsverðar breytingar í verkefnum sumra heilbrigðisstofnana á landinu og er það alveg örugglega sérstök staða, mig langar sérstaklega að nefna Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hvað þetta varðar. Þar hefur orðið fordæmalaus mannfjölgun á mjög stuttum tíma, auk þess sem hefur orðið þar mikið álag vegna fjölgunar ferðamanna. Þetta gildir líka um Heilbrigðisstofnun Suðurlands þótt það sé með öðrum hætti. Þar hefur álagið verið að hluta til vegna ferðamanna, en líka að hluta til vegna stórkostlegrar aukningar í sjúkraflutningum.

Þetta eru allt saman breytur sem við þurfum að hafa undir þegar við metum framlagið til hverrar stofnunar um sig. Þá dugar ekki bara að taka íbúafjölgunina eina og sér vegna þess að sums staðar eru starfsstöðvarnar gríðarmargar í umdæminu, eins og gildir til að mynda um Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem starfsstöðvarnar eru átta og það þarf alltaf að vera með lágmarkslykilmönnun á hverjum einasta stað, sem er öðruvísi háttað á Suðurnesjunum.

Allt þarf þetta að vera með inni í útreikningunum. En mér er hins vegar algjörlega ljóst að það er tímabært að horfa til stöðunnar í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hvað varðar þessar áskoranir. Ég átti reyndar mjög góðan fund með heimamönnum um stöðu heilbrigðismála þar almennt í síðustu viku. Þar vorum við líka að ræða sérstaklega stöðu aldraðra á svæðinu. Það eru miklar áskoranir hjá stofnuninni líka sem lúta að mönnun sem hv. þingmaður kemur inn á en þar hafa verið ákveðnir erfiðleikar bæði varðandi hjúkrun og lækna. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að fólk þurfi að horfa til þess að fá ekki þessa grunnþjónustu í sinni heimabyggð. Ég er liðsmaður hv. þingmanns í því að standa með heilbrigðisstofnunum úti um land og ekki síst þeim sem hv. þingmaður nefnir hér.