148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:53]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um helstu áskoranir, framtíðarsýn og meginmarkmið sjúkrahúsþjónustu. Í fjármálaáætlun kemur fram að mönnun heilbrigðisþjónustunnar sé mikið áhyggjuefni, en Landspítalinn hefur þurft að loka rýmum vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki, einkum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Þar kemur einnig fram að umtalsverður hluti nokkurra heilbrigðisstétta mun hefja töku lífeyris á næstu árum, en nýliðun í þessum stéttum hefur ekki verið nægileg til að mæta því og er talið nauðsynlegt að bregðast við þeirri stöðu strax til að snúa þróun við.

Nú hafa ljósmæður síðastliðnar vikur sagt upp í tugatali vegna harðlínustefnu ríkisins í kjaramálum og er því ljóst að skortur á ljósmæðrum mun auka á þann vanda sem snýr að mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við þeirri stöðu? Í framtíðarsýn málefnasviðsins stendur, með leyfi forseta:

„Sjúkrahús hafi á að skipa vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki sem býr við gott starfsumhverfi og starfskjör. Þegar aðgerðir eru svo skoðaðar er ein aðgerðin að fjölga fagfólki til að mæta metinni mannaflaþörf. Á að fara í þessa aðgerð árin 2020 til 2023.“

Það er tvennt sem mér þykir furðulegt við þessa aðgerð. Í fyrsta lagi rímar þetta engan veginn við ákallið fyrr í kaflanum um að þörf sé á því að bregðast við manneklunni strax til að snúa þróun við og í öðru lagi get ég ekki séð að aðgerðin, að fjölga fagfólki til að mæta metinni mannaflaþörf, sé yfir höfuð aðgerð. Þetta er markmið.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er aðgerðin? Hvernig hyggst ráðherra ætla að ná tilsettu markmiði, þ.e. að fjölga fagfólki? Og hvers vegna á ekki að ráðast í aðgerðir strax þar sem þetta er ein helsta áskorun málaflokksins? Hvernig hyggst ráðherra bregðast við uppsögnum ljósmæðra?