148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Því er til að svara að það er rétt að kolefnisgjaldið var hækkað um 50% 1. janúar 2018 og mun hækka um 10% 2019 og önnur 10% 2020. Það er vissulega ekki eins mikið og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir sem voru 100% árið 2018.

Ég get sagt mína skoðun á því. Ég tel að kolefnisgjaldið sé mikilvægt, ekki síst með tilliti til þess að reyna að breyta hegðun fólks í samfélaginu til að hverfa frá því að nýta sér fararskjóta sem nota bensín, í þessu tilfelli, yfir í að nota fararskjóta sem menga minna. Við megum samt ekki gleyma því að samhliða þessu hefur þegar verið ráðist í breytingar á ívilnunum til bifreiða sem menga minna og gengu í gildi 2018. Einnig eru uppi áform um að taka þessi mál til endurskoðunar í fjármálaráðuneytinu þar sem betur verður farið yfir mögulegar undanþágur og annað sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála.

Ef við lítum á tölurnar sem þarna er um að ræða skilar þetta um 2 milljörðum 2018, 600 milljónum 2019 og öðrum 600 milljónum árið 2020, þ.e. alls 3,2 milljörðum kr. yfir tímabilið eins og það lítur út í dag.