148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Þegar hæstv. utanríkisráðherra talar hér um hlutfallstölur í innleiðingu á ESB-gerðum veit hann mætavel að stærstur hluti þeirra gerða sem hann vísar til heyrir undir sameiginlega landbúnaðarstefnu og sjávarútvegsstefnu sem EES-samningurinn nær ekki til. Mjög vönduð, gagnger og ítarleg skýrsla sem Norðmenn létu gera um ávinning Noregs af EES-samstarfinu fól m.a. í sér að Norðmenn hefðu innleitt um 75% af gerðum og reglum Evrópusambandsins. Þetta er mjög skýrt og kemur skýrt fram í þeirri ágætu skýrslu. Ég vona að sú skýrsla sem hæstv. utanríkisráðherra hefur verið falið að flytja Alþingi um ávinninginn og gallana af EES-samstarfinu verði af sömu gæðum og sú norska var því að þar var farið mjög ítarlega yfir þann ávinning sem Norðmenn telja sig hafa haft af EES-samstarfinu og niðurstaðan er algjörlega afgerandi, yfirgnæfandi (Forseti hringir.) jákvæð áhrif.

Ég er reyndar ánægður með að heyra hæstv. ráðherra tala um að ávinningurinn af EES-samstarfinu sé ótvíræður. Það er ekki það sem ég heyri frá samflokksmönnum hans mörgum hverjum í dag.