148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skildi það þannig að orðunum varðandi útlendingamálin hefði fyrst og fremst verið beint að þeim sem hér sækja vernd. En auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að þetta er fjölbreyttur hópur og margir sem óska einfaldlega eftir dvalarleyfi í landinu. Það er ekki æskileg staða í meðferð þeirrar stofnunar sem hér á undir ef það tekur marga mánuði að fá botn í þau mál, en þar er samt sem áður í mun minna mæli um matskennd atriði að ræða en oft á við í rannsókn þeirra mála sem varða þá er sækjast eftir alþjóðlegri vernd. Þar getur oft og tíðum reynt á fjölmörg erfið atriði við úrlausn mála t.d. þegar um er að ræða vegabréfalausa einstaklinga og þegar reynir mjög á sönnun um einstök atriði og annað þess háttar, vafi leikur á um aldur viðkomandi o.s.frv.

Þegar um er að ræða dvalarleyfi eða fólk sem kemur hingað í atvinnuleit erum við með þó nokkuð skýrari reglur og ætti í minna mæli að reyna á matskennd atriði. Af þeim sökum finnst mér engin ástæða til þess að í stjórnkerfinu byggist upp margra mánaða langir biðlistar. Það ættu að vera erindi sem auðveldara væri að taka afstöðu til.