148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar fjármálaáætlunar ríkisstjórnar eins og áður, til næstu fimm ára, og ræðum nú þætti sem snúa að hæstv. dómsmálaráðherra, en hæstv. fjármálaráðherra gengur hér í hans störf og er hér til svara.

Það eru ýmis málefni sem heyra þarna undir. Ég hef áhuga á mörgum þeirra, skiljanlega kannski. Ég ætla að feta aðeins í fótspor hv. þm. Willums Þórs Þórssonar af því að ég hafði nú rekið augun í það sama og spyr hæstv. ráðherra um það sem ég les hérna í tillögunni um dómstólana. Útgjöld til málaflokksins hafa aukist stórkostlega síðastliðin ár. Auðvitað eru einhverjar skýringar á því, Landsréttur o.s.frv., en þetta er meira. Þetta hefur vaxið úr 2,2 milljörðum 2016 í 3,2 milljarða 2018. Þetta reiknast mér að vera yfir 40%.

Gott og vel. Allir vilja hafa góða dómstóla. Gott dómstólakerfi. Þetta er jú ein af þremur meginstoðum ríkisvaldsins. Skoðum þetta betur. Dómstólasýslan ein og sér kostar 293 milljónir. Mér finnst það mikið. Kostnaður vegna sérfróðra dómenda sem aðstoða dómendur hefur aukist um yfir 100% frá árinu 2011–2017. Hvað er að gerast? Hrunmálunum er að mestu lokið. Munnlegum einkamálum hefur fækkað. Á sama tíma eru valdheimildir til aðstoðarmanna auknar. Meira afl. Dómurum í héraði hefur á sama tíma fjölgað. Á sama tíma og allt þetta er að gerast hefur málsmeðferðartími lengst úr 299 dögum árið 2010 í 381 dag á síðasta ári. Talandi um að hljóð og mynd fari ekki saman þá finnst mér eitthvað vera gruggugt þarna. Ágætir vinir mínir í kerfinu (Forseti hringir.) verða bara að afsaka að ég segi: Þarna þarf einhverra skýringa við. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann getur skýrt þetta misræmi.