148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[19:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega andsvarið. Það var áhugavert að heyra eitt sérstaklega, þ.e. það sem hún sagði um að í fjárfestingum væru það einkafjárfestingar sem menn hefðu ekki nákvæma yfirsýn yfir hvort stæðust áætlanir frekar en opinberar. Því er nefnilega akkúrat öfugt farið þegar talað er um opinbert fé í rekstur versus opinbert fé sem fer í þjónustusamninga til einkaaðila. Því er kirfilega fylgt eftir. Þótt menn keyri vissulega stundum fram úr.

En það sem ég er kannski að tala um, og ég held reyndar ekki að lög um opinber fjármál hjálpi okkur þar, er ekki endilega fé sem rennur til reksturs einstakra heilbrigðisstofnana heldur frekar til þeirra verkefna sem þar er sinnt. Ég tel sérstaklega brýnt að við höfum virkilegt eftirlit með því. Ef svo fer sem horfir — það er stefna ríkisstjórnarinnar að færa í ríkari mæli einkarekin verkefni sem sjálfstætt starfandi aðilar hafa verið að sinna, til þessara opinberu aðila — er mjög mikilvægt að eftirlit sé að minnsta kosti jafn stíft með því og það er í hinu einkarekna kerfi. Það verður áhugavert að sjá hvernig við nýtum þetta.