148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir að taka upp þessa umræðu í dag. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Ég hef í mörg ár, hér á Alþingi og löngu áður en ég kom á þing, kallað eftir því hver stefna íslenskra stjórnvalda fyrir utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga hálfu ríkisins væri. Ég hef aldrei fundið neitt um hvernig menn ætli standa að því.

Það er svo ótrúlegt þegar við erum að skipuleggja heilbrigðiskerfið á Íslandi, að það skuli ekki vera á hreinu hvernig menn ætla að standa að þessum hlutum sem eru svo gríðarlega mikilvægir fyrir landsbyggðina vítt og breitt og ferðamannalandið Ísland. 85% af sjúkraflutningum í lofti í dag eru með sjúkraflugvélum, 15% með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Það eru hlutföllin. Þetta er þjóðaröryggismál.

Þá vil ég benda á það sem ég hef óttast mest í öryggismálum Íslendinga mörg undanfarin ár, þ.e. þegar stórar rútuslysið verður. Stóra rútuslysið þar sem 50–70 manns geta slasast alvarlega á sama tíma. Við erum með Landspítalann, sem getur tekið við 25 alvarlega slösuðum, og Sjúkrahúsið á Akureyri, sem getur tekið við fimm slösuðuðum. Þetta er við bestu skilyrði, 30 manns sem hægt er að taka við á okkar sérhæfðu sjúkrahúsum. Eftir það verður farið að flytja fólk úr landi, til nágrannalandanna.

Ég kemst greinilega ekki mjög langt á þessum stutta tíma yfir punktana mína, en ég vil bara benda á skýrslu sem Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri, skrifaði fyrir samgönguráðuneytið á síðasta ári, um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar og það sem kemur fram varðandi öryggishlutverk vallarins í heilbrigðisþjónustu okkar.

Það væri ánægjulegt að heyra einhver svör frá ráðherra við spurningum mínum. Er til stefna sem snýr að utanspítalaþjónustu og sjúkraflutningum af hálfu ríkisins í landinu og/eða stendur þá til að vinna slíka skýrslu ef ekki neitt er til?