148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

úttekt á barnaverndarmáli.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður lítur svo á að það að ég verði við ósk hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, sem hefur óskað eftir því við mig að óháð úttekt verði gerð á málatilbúnaði barnaverndarnefnda, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis í kringum þau mál sem verið hafa til umfjöllunar, hindri á einhvern hátt störf þingsins hefur hv. þingmaður misskilið eitthvað. Það er hins vegar skylda mín sem forsætisráðherra að nýta þær heimildir sem ráðherrar hafa í lögum um Stjórnarráðið til þess að geta kallað til óháða sérfræðinga, eins og ég hef nú gert, til þess að láta slíkt mat fara fram. Við erum ekki að skipta okkur af störfum þingsins með þeim hætti. En hins vegar eru fastanefndir þingsins ekki rannsóknarnefndir í þeim skilningi þess orðs. Þær geta auðvitað tekið upp mál og sett á dagskrá, eins og gert hefur verið hér og kemur fram í þessari tilkynningu. Þar er raunar ekki talað um frumkvæðisathugun, heldur að málið hafi verið til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Alþingis.

En þar sem þau gögn sem hér liggja frammi eru bara aðgengileg sumum þingmönnum, þeim sem sæti eiga í velferðarnefnd en að sjálfsögðu ekki þeirri sem hér stendur, hefði ég talið æskilegt fyrir þennan málaflokk, sem er viðkvæmur málaflokkur, að við vönduðum okkur öll í umfjöllun um hann, það skiptir gríðarlega máli, að þingmenn myndu fagna því að utanaðkomandi óháðir sérfræðingar hefðu verið fengnir til þess að fara yfir þessi mál, stjórnsýslu þessara aðila sem taldir eru upp í fréttatilkynningunni, og að áhersla væri lögð á að það gerðist hratt. Hv. þingmaður talar hér um sumarfrí. Hér er gefinn tími sem er eins skammur og mögulegt er til þess sem við metum mögulegt fyrir þessa sérfræðinga að ljúka þessari yfirferð. Ég hefði talið að hv. þingmenn myndu fagna því að framkvæmdarvaldið tæki á málum með þessum hætti og nýttu þær heimildir sem við höfum til að tryggja að öll þessi mál væru hafin yfir vafa. Við skuldum þessum málaflokki það.