148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:27]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við sem hér sitjum og störfum gerum það í umboði þjóðarinnar. Við erum kjörin til þess að vera hér af almenningi og við erum fulltrúar almennings og við erum fulltrúar ólíkra sjónarmiða og ólíkra lífsviðhorfa. Almenningur kýs okkur til þess að setja okkur eins vel og okkur er unnt inn í mál fyrir sína hönd og komast síðan að niðurstöðu. Þetta fyrirkomulag hefur þótt gefast nokkuð vel í vestrænum heimi. Það er kallað fulltrúalýðræði.