148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[23:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, um húsnæðislið vísitölu neysluverðs. Málið snýr að því að breyta 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu þess efnis að heimila að verðtryggja sparifé og lánsfé þannig að grundvöllur verðtryggingar verði vísitala neysluverðs án húsnæðisliðar frá þeirri vísitölu sem við miðum við í dag, vísitölu neysluverðs. Þá miðum við vísitölu sem Hagstofan reiknar út og er án húsnæðisliðar, ef við höldum áfram með þetta mál.

Nú er þetta mál komið til 2. umr. Eins og fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar afgreiddi nefndin mál af þessu tagi í fyrra og samþykkti Alþingi einróma 8. maí sl. þingsályktunartillögu með þeirri breytingu sem nefndin lagði til og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þar er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sérfræðinga til að meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar ellegar að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar. Þetta er mikilvægt.

Alþingi samþykkti að fara faglega yfir málið vegna þess að slík ákvörðun snertir marga þætti efnahagslífs okkar og hefur áhrif á aðrar breytur, eins og fram kemur í samþykktri tillögu, t.d. samanburð við viðskiptalöndin, launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti og ekki síst niðurstöðu og tillögur verkefnisstjórnar um endurmat á peningastefnu og ákvörðunum er lúta í framhaldinu að vaxtastefnu Seðlabankans. Þetta er tvennt ólíkt, sú ákvörðun sem er tekin varðandi stýrivexti og sú ákvörðun sem við tökum í frumvarpi sem þessu um verðtryggða lánasamninga.

Allt sem ég nefndi snertir hagsmuni heimila og fyrirtækja, ekki aðeins sú einhliða ákvörðun sem lagt er til í frumvarpinu að taka án nokkurs faglegs mats t.d. á peningastefnu og áhrifum á vaxtakjör. Það er býsna ankannalegt að tala hátíðlega um fjármál og efnahagslegan stöðugleika og reyna að vinna aðra hluti faglega og skella þessu svo á sisvona án þess að fara í faglegt mat á því hvaða áhrif það hefur. (Gripið fram í.)Í mínum huga verður málið óþarft eftir samþykkt Alþingis, eins og ágætur hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson orðaði það úr ræðustól. En það er komið hérna inn og er í sjálfu sér velkomið í þá faglegu vinnu sem Alþingi hefur þegar falið fjármála- og efnahagsráðherra og smellur reyndar inn í þá vinnu sem er boðuð í kjölfarið um framtíð íslenskrar peningastefnu. Það kemur einmitt fram í þeirri tillögu, í samræmi við þingsályktunartillöguna sem Alþingi samþykkti, að meta fyrst og breyta svo. Starfshópurinn tekur þá grundvallarafstöðu að ekki eigi að reyna að beita stýrivöxtum gegn fasteignaverði og metur nokkrar leiðir færar til þess, svo sem vísitölu neysluverðs án húsnæðis eða samræmda vísitölu neysluverðs, svipað og sú tillaga sem Alþingi samþykkti einróma.

Að mati starfshópsins þarf að skoða slíkar leiðir vel og vandlega. Ég endurtek, virðulegi forseti, skoða vel og vandlega. Það er alveg í takt við þingsályktunartillöguna sem var samþykkt. Það þarf að setja málið í faglegt ferli.

Markmiðið með frumvarpinu sem við ræðum og þingsályktunartillögunni er það sama nema hér er ekki um að ræða neitt faglegt mat á því sem á að gera. Ég hlýt því að styðja nefndarálit meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þá fer þetta frumvarp inn í þá vinnu sem þingsályktunartillagan boðaði og Alþingi samþykkti og er velkomið í það faglega ferli.