148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

ávarp forseta Íslands.

[15:06]
Horfa

Forseti Íslands (Guðni Th. Jóhannesson):

Háttvirtu alþingismenn, kæru landsmenn. Við hæfi er að hittast á Þingvöllum á hátíðarstundu. Saga þessa staðar er samofin sögu íslensks samfélags. Á þessum slóðum, fyrir þúsund árum og nær einni öld betur, var stofnað allsherjarþing á Íslandi. Lengi markaðist líf fólksins í landinu af því sem höfðingjar ákváðu á Þingvöllum. Hér mótaðist líka menningararfur okkar. Hér var vettvangur sagna og viðburða sem lifað hafa í minni heillar þjóðar. Hingað getum við sótt vís orð um sigur þekkingar og skynsemi yfir hindurvitnum, hræðslu og fordómum. „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ — Þetta mun Snorri goði hafa sagt við heiðna menn sem töldu jarðelda stafa af reiði ása yfir því að nýr siður skyldi tekinn upp í landinu. Hingað getum við líka sótt visku um samfélag okkar og réttarríki sem standi undir nafni. „Það mun verða satt,“ sagði Þorgeir Ljósvetningagoði þegar kristni var lögtekin, „er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn.“ Stuttu síðar var barist hér á völlunum, helgi þingsins rofin uns höfðinginn Hallur af Síðu boðaði sættir og kvað engu skipta þótt hann yrði sagður lítilmenni fyrir vikið. Samfélag byggist á málamiðlunum, sífelldri leit að sátt í stað þess að vald hins sterka ráði öllu. Látum þann lærdóm hljóma héðan af Þingvöllum.

Í sagnasjóð okkar má ætíð leita. Vissulega verður aldrei sannreynt að þeir goðarnir hafi mælt algerlega á þann veg sem sögur greina, skráðar og skáldaðar öldum síðar. Það verður þó ekki afsannað heldur og það er boðskapurinn sem gildir, sú speki og reynsla sem við viljum hampa og hafa að leiðarljósi. Vörumst hins vegar að vitnisburðir héðan verði aðeins glæstir og bjartir. Hér voru Lögberg og Lögrétta en hér voru líka höggstokkur og hylur, Drekkingarhylur. „Vont er þeirra ránglæti,“ reit Halldór Laxness, „verra þeirra réttlæti“. Hér var fólki refsað illa fyrir litlar eða engar sakir, hér voru konur líflátnar fyrir brot sem á þeim voru framin. Saga þessa staðar er því líka saga hinna undirokuðu, saga hinna kúguðu. Blessuð sé minning allra sem hér máttu þola hörku og grimmd, órétt og ofsa.

Kæru landar. Um leið og gengist er við böli fyrri alda skulum við fagna þeim augljósu framförum sem orðið hafa í lífi þessarar þjóðar. Snemma í júlí 1918 stóðu fulltrúar hins danska valds á þessum stað, í boði Íslendinga sem voru þeim jafnfætis í viðræðum um sambandslög Íslands og Danmerkur. Hinn 18. júlí fyrir réttri öld voru samningar um þau undirritaðir og 1. desember 1918 urðu hin miklu tímamót. Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Lokaskrefið á sjálfstæðisbraut var líka stigið hér á völlunum. Lýðveldi var stofnað. Í raun lýkur henni þó aldrei, baráttu fólks fyrir fullveldi og sjálfstæði, samfélagi réttlætis og sanngirni í samvinnu við aðrar þjóðir eftir okkar óskum og þörfum. Og við munum áfram eiga Þingvelli, fyllast sömu lotningu og þeir gerðu ugglaust, Grímur geitskör og förunautur hans, þegar þeir leituðu staðar undir allsherjarþing, horfðu yfir skóginn, völlinn og vatnið og hugsuðu með sér að nú þyrfti ekki að fara frekar.

Margt hefur breyst í meira en þúsund ár en ætíð lifir fegurð Þingvalla. Megi hún líka lifa áfram, heilbrigð ættjarðarást okkar sem búum á Íslandi, virðing hvert fyrir öðru, sama hvaðan fólk kemur, og landinu sem okkur er ætlað að gæta. Um það eigum við ótal ljóð. Í Landi Ingibjargar Haraldsdóttur er þessi virðing ofar öllu, ekki remba og ekki dramb:

Ég segi þér ekkert um landið,

ég syng engin ættjarðarljóð

um hellana, fossana, hverina

ærnar og kýrnar

um baráttu fólksins

og barning í válegum veðrum

nei. En stattu við hlið mér

í myrkrinu. Andaðu djúpt

og finndu það streyma

segðu svo:

Hér á ég heima.

Já, hér eigum við heima. Við erum Íslendingar, frjáls þjóð í fögru landi. Og framtíðin, hún er í okkar höndum, opin og óviss, full áskorana og úrræða.

Ágæti þingheimur: Ég fagna með ykkur stofnun barnamenningarsjóðs og smíði nýs hafrannsóknaskips. Framfarir felast í bættum hag barna, menntun og menningu, rannsóknum og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Kæru landsmenn. Megi okkur auðnast að ganga saman til góðs götuna fram eftir veg.