149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:30]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að þakka fyrir þetta frá hæstv. ráðherra. Í örstuttu máli langar mig rétt að ræða um það sem snýr að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins. Það kemur í ljós þegar maður skoðar gögn sem snúa að því að undanfarinn áratug hafa framlög til nýframkvæmda og viðhalds flugvalla á Íslandi verið ákaflega lág. Þegar menn skoða þetta í samhengi hlutanna eftir bankahrunið sýnist mér þetta geta raunverulega verið sá þáttur í ríkisfjármálunum sem við höfum kannski lent verst í. Tölur frá því sem var síðustu sjö, átta, níu ár hafa nánast þurrkast upp. Nú spyr ég hæstv. ráðherra um það sem snýr að því: Hvernig hyggjast menn taka á þessum málum í fjárlögum næsta árs og síðan á næstu árum?

Annað er bygging nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Nefnd skilaði af sér í júnímánuði til samgönguráðuneytisins varðandi val á staðsetningu fyrir flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Ég hef áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvort það sé einhver framvinda í þeim málum og hvað menn hyggjast fyrir.

Síðan spyr ég um byggðamálin og fína byggðaáætlun sem við samþykktum hér í júnímánuði, þá samþættingu sem er kannski svolítið nýtt verklag miðað við hvernig þetta hefur verið gert áður. Þar er búið að samþætta í 52 áherslupunktum og draga þá saman inn í byggðaáætlunina héðan og þaðan, punkta eins og jöfnun á þotueldsneyti í landinu. Þar er rætt um flugþróunarsjóði, fleiri gáttir inn í landið og þá uppbyggingu.

Svo langar mig að heyra frá hæstv. ráðherra um eigandastefnu Isavia og mögulega aðild samgönguráðuneytisins að eigandastefnu fyrir Isavia um hvernig á að standa að rekstri fyrirtækisins, hver sé tilgangur ríkisins með rekstrinum og hvaða markmið menn vilji sjá í rekstrinum.