149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Takk fyrir þessi svör. Mig langar líka úr pontu Alþingis að vekja athygli á því að á næsta ári er 100 ára afmæli flugs á Íslandi. 3. september á næsta ári eru 100 ár síðan fyrsta flugvélin hóf sig til lofts í Vatnsmýrinni. Ég vil bara koma þeim skilaboðum til hæstv. ráðherra og biðja hann að hafa í huga hvort ekki sé hægt að taka tillit til þess að vinna með grasrótinni í landinu að því að fagna þeim tímamótum sem verða á næsta ári.

Ef við lítum á einstök verkefni í byggðamálum og það sem ég tel að á síðustu árum hafi heppnast best er ljósleiðaravæðing, Ísland ljóstengt, og ljósleiðaravæðing landsins sem hæstv. ráðherra kom inn á í sínu máli áðan. Það eru komnar 4.000 tengingar og u.þ.b. 1.500 eftir. Ég held að nánast ekkert hafi byggt upp landið og sveitir þess jafn hratt. Þessi þjónusta og tækninýjungar inn í sveitirnar hafa haft mestu áhrifin á byggðaþróun á síðustu árum.

Ég var ásamt hv. þm. Þórunni Egilsdóttur á fundi í Þórshöfn fyrir viku eða tveimur síðan og í tengslum við Ísland ljóstengt sem á meira við sveitirnar velti ég því upp hvort við eigum að skoða það að minni þorpin vítt og breitt um landið eigi með einhverjum hætti að geta haft aðkomu inn í slíkt verkefni. Mér sýnist sem þau lendi jafnvel svolítið út undan vegna þess að samkeppnishliðin verður aldrei til í 200–300 manna, 400 manna, 500 manna þorpum vítt og breitt um landið. Þannig tel ég að það væri mjög sterkt verkefni að útfæra Ísland allt ljóstengt til þessara þorpa sem myndi styrkja þau mjög.