149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Já, hvað varðar aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu lá hún fyrir og var samin eftir mjög víðtækt samráð af hópi sem samanstóð af öllum í rauninni er koma með einhverjum hætti að meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Ekki bara lögreglu, dómstólum og þar fram eftir götunum, heldur miklu fleirum líka, heilbrigðiskerfinu og hvað á maður að segja, baráttuhópum líka. Það var auðvitað ómetanlegt og hefði kannski ekki verið hægt að vinna þetta með öðrum hætti en að fá einmitt sjónarmið margra í þessu.

Í aðgerðaáætluninni eru margar góðar aðgerðir, þetta eru margar aðgerðir. Það sem er gott við þessa aðgerðaáætlun er að margar þeirra kölluðu ekkert endilega á mikil fjárútlát og það er einmitt það sem oft fæst með vinnu sem þessari þegar menn koma saman sem þekkja gerst til að fram komi fram ábendingar um breytt verklag sem kostar ekki mikið.

Varðandi þá þætti sem virkilega kosta og sumir kosta þó nokkuð, jú, þá var lagt á það kostnaðarmat, það var kostnaðarmetið í dómsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við alla þá sem þurfa að bera þann kostnað eða gera grein fyrir honum. Það á að vera allt í föstum skorðum og ég hef ekki heyrt enn þá að einhver vanáætlun hafi orðið af því eða ofáætlun, þannig að þetta er í ágætum farvegi að minnsta kosti hingað til.

Hvað kirkjuna varðar hef ég lýst því yfir að ég sé fyrir mér að kirkjan verði sjálfstæð, enn þá sjálfstæðari en hún er. Ég vil helst sjá það þegar kemur að fjármögnun hennar. En ég bendi á að verkefni kirkjunnar eru auðvitað gríðarlega mikil og mörg á sviði félagsmála og velferðarmála. Mér finnst því ekki að menn geti talað svona í hálfkæringi til kirkjunnar þannig að þetta séu bara fjárframlög til trúmála vegna þess að hún hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki sem ég er ekki viss um að þorri landsmanna myndi vilja vera án ef í hart færi.