149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:37]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er margt áhugavert sem hv. þingmaður segir um þessi mál. Ég fylgist jafnan með þegar hann tjáir sig um þau. Ég er nú ekki viss um að við séum alveg sammála í öllum smáatriðum, en ég held að það væri líka óhætt fyrir hv. þingmann, vegna þess að hann er að skoða tekjuskattskerfið og þetta eru svolítið róttækar breytingar sem hann nefnir þarna, að skoða líka þrepakerfið sem við erum með og fara yfir hvernig þrepakerfið er á Norðurlöndunum, hversu mörg þrep eru þar og hvað efstu lög samfélagsins leggja til í prósentum talið í tekjuskattskerfinu þar. Ég hygg að við gætum nýtt tekjuskattskerfið til róttækari breytinga í átt til jöfnunar ef við myndum stíga lengra í átt til Norðurlandanna.

Af því að hv. þingmaður er svona mikill áhugamaður um að beita tekjuskattskerfinu í þessa veru þyrftum við jafnvel að skoða það í sameiningu hvernig við getum fjölgað þrepunum þannig að þeir sem eru í efri lögum samfélagsins leggi hlutfallslega meira til samneyslunnar. (Gripið fram í.) Ég held að það sé svoleiðis í lok dags að það sem skipti mestu máli sé að þeir sem eru í lægri þrepum samfélagsins og jafnvel barnmargar fjölskyldur hafi sem flestar krónur milli handanna til þess að geta framfleytt sér og börnum sínum í hverjum mánuði.

Ég hvet hv. þingmann til þess að skoða svolítið skandinavíska módelið líka. Svo tökum við þessa umræðu betur síðar.