149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[16:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta og hv. þingmanni kærlega fyrir kynninguna á þessu mikilvæga frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umboðsmann Alþingis. Það verkefni sem fyrir liggur og er falið umboðsmanni Alþingis og hans virðulega embætti er nú ekki léttvægt. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni og í rauninni finnst mér mjög vel til fallið að fela umboðsmanni Alþingis þetta eftirlit frekar en einhverri annarri stofnun úti í bæ.

Ég sé í frumvarpinu að það var gert með sambærilegum hætti á Norðurlöndunum, þ.e. umboðsmenn þjóðþinga á Norðurlöndum hafa einnig þetta hlutverk með höndum. Ég verð að segja að mig langar til að treysta því að við tryggjum það líka að fjármagn fylgi verkefninu. Það er svo oft þannig að við ákveðum á þingi eða stjórnvöld ákveða að fara í einhvers konar vinnu eða verkefni eða réttarbót og fela einhverju stjórnvaldi eða embætti það en gleyma svo að það kallar á fleiri starfsmenn og meiri vinnu. Og það kostar peninga. Það er það eina sem ég hef áhyggjur af varðandi verkefnið, sem ég veit þó að umboðsmaður mun rækja vel og af fullri samvisku eins og hann og starfsfólk hans gerir varðandi önnur verkefni.

Við erum að tala um að vernda mannréttindi og koma í veg fyrir ómannúðlega og vanvirðandi meðferð á frelsissviptum einstaklingum. Frelsissviptir einstaklingar eru einhvern veginn í þeirri stöðu að geta nánast enga björg sér veitt, þannig að þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt verkefni.

En það er ekki bara það sem frumvarpið inniheldur heldur líka vernd uppljóstrara sem ég verð að hrósa forsætisnefnd fyrir að hafa sett þarna með. Því að það er ekki síður mikilvægt að starfsfólk og aðrir sem verða vitni að einhvers konar ómannúðlegri meðferð gagnvart frelsissviptum einstaklingum, hvort sem um er að ræða fanga eða fólk sem er vistað á lokuðum deildum hvers konar, geti að eigin frumkvæði látið umboðsmann Alþingis vita af því sem fram fer innan dyra án þess að eiga það á hættu að vera refsað fyrir að ljóstra upp um upplýsingarnar.

Ég hjó eftir því að í 2. mgr. 7. gr. stendur að sá sem óskar eftir að greina frá eða afhenda gögn samkvæmt 1. mgr. skuli taka fram ef hann óskar eftir að njóta verndar. Tel ég mjög mikilvægt að það sé áréttað — en ég á eftir að lesa lögskýringargögnin betur í gegn — að starfsfólk umboðsmanns geri það líka að fyrra bragði að spyrja viðkomandi: Óskar þú nafnleyndar? Það er mjög mikilvægt að fólki sem kemur með svona upplýsingar sé kunnugt um að möguleiki sé á að óska nafnleyndar, að ekki sé sagt frá því hver það er sem segir frá þeim brotum sem eiga sér stað eða ómannúðlegri meðferð. Það þarf að vera skýrt, svolítið eins og maður verður vitni að í dómi þegar dómari byrjar alltaf á því að kynna vitni um réttarstöðu. Þetta er í rauninni svipað. Fyrir viðtalið sé einhver klásúla sem er alltaf lesin upp um að fólk geti óskað nafnleyndar, það þarf eiginlega að vera með blikkandi hnappi á heimasíðu umboðsmanns Alþingis að þetta sé möguleiki. Ég held að það muni frekar hvetja fólk til þess að stíga fram og greina frá ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð á þeim sem eru frelsissviptir.

Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu fleiri um þetta tiltekna frumvarp og þetta tiltekna verkefni, sem ég ítreka að er gríðarlega mikilvægt. En aðeins vegna umræðu milli tveggja flutningsmanna frumvarpsins, hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar og 1. flutningsmanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um ákall umboðsmanns Alþingis til þingmanna um að breyta lögum þannig að stjórnsýsla dómstólanna heyri líka undir embætti hans, þá hefur þetta verið ítrekað þó nokkuð oft, bæði í ræðu og riti hjá umboðsmanni. Auðvitað er bæði hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem og hv. þingmönnum í sjálfsvald sett að útbúa slíkt frumvarp. Það kemur þá bara í ljós hvaða leiðir eru bestar í því. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að einhver töf verði á þessu tiltekna verkefni sem við vitum að embætti umboðsmanns Alþingis hefur verið að undirbúa um nokkurt skeið. Það er spurning um hvaða leið er heppilegust hvað það varðar.

En það er alveg ljóst og hefur komið fram ítrekað í máli umboðsmanns Alþingis sem og í ársskýrslum hans og ábendingum í bréfum og erindum sem hann hefur verið að senda, m.a. til dómsmálaráðuneytis, að hann telur brýna þörf á að stjórnsýsla dómstólanna heyri einnig undir eftirlit umboðsmanns Alþingis. En það virðist ekki vera sami skilningur þar á bæ og hefur umboðsmanni Alþingis hreinlega ekki verið svarað þegar hann hefur borið fram erindi sín eða sent inn fyrirspurn varðandi ýmsa þætti þar sem ýmist borgarar eða starfsfólk leitar til hans.

Ég held að það sé kannski kominn tími á að Alþingi svari þessu kalli umboðsmann Alþingis, sem er nú eldri en tvævetur í embætti og býr yfir mjög mikilli reynslu. Ég held því að það sé vert að hlusta þegar hann ítrekar óskir sínar.

Að öðru leyti fagna ég frumvarpinu. Það er mjög þarft.