149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir hans fínu ræðu og minnihlutaálit hans flokks. Mig langar að spyrja þingmanninn út í þann kafla álitsins sem fjallar um krónu á móti krónu skerðinguna og þá baráttu sem hann og við fleiri erum í til að fá þetta afnumið. Hérna stendur:

„Þetta rammgerða kerfi krónu á móti krónu skerðingar leiðir af sér að margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa lítinn sem engan ávinning af því að afla sér tekna með vinnu sé fyrir því vilji og geta. Slíkt fyrirkomulag lítur fram hjá mikilvægi vinnuframlags fatlaðs fólks. Með því að fella brott þetta kerfi myndast hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem eiga rétt á hinni sérstöku uppbót.“

Þetta er mjög einfalt í mínum huga (Forseti hringir.) og átta ég mig ekki á því af hverju þetta getur ekki bara gengið í gegn. Þegar ég heyrði í útvarpinu í gær að það kostaði 16–18 milljarða að taka þetta af botnaði ég ekki alveg í því svari og mig langar að spyrja þingmann: Getur hv. þingmaður leitt mig í sannleikann um það?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á ræðutímann.)

Hann er allt of stuttur. [Hlátur í þingsal.]