149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um endurmat á hvalveiðistefnu Íslands, mál sem ég styð eins og ég fór yfir í andsvari við hv. þingmann áðan. Mig langar aðeins að gera grein fyrir ástæðunum fyrir því að ég styð þetta mál og hvers vegna ég styð það að banna hvalveiðar, jafnvel án þess að fá fram þau gögn sem þessi þingsályktunartillaga leggur til. Það hljómar kannski í fljótu bragði eins og ég sé að taka ákvarðanir án þess að hafa tilheyrandi gögn fyrir framan mig en málið er bara að ég byggi ekki afstöðu mína á nákvæmlega þeim gögnum sem hér er kallað eftir. Ég sé þetta nefnilega í aðeins stærra samhengi og það þrátt fyrir að ég sé í grunnprinsippinu ekkert sérstaklega á móti því að veiða dýr til matar almennt. Mér fannst það skemmtilegur punktur sem ég heyrði einu sinni, að kannski sé betra að kála einum hval heldur en 1.000 kjúklingum. Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki alveg að meta hvaða dýr eru meira virði siðferðilega en önnur en við slátrum hins vegar dýrum til að borða þau á hverjum degi og ég hef í sjálfu sér ekki miklar siðferðilegar athugasemdir við það. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef áhyggjur af loftslagsmálum, sem er vonandi orðið mjög skýrt, og þætti landbúnaðar í þeim. Ég get miklu frekar séð fyrir mér umhverfisástæður en ástæður grundvallaðar á því að rangt sé að drepa dýr til matar. Siðferðileg afstaða mín gagnvart hvalveiðum byggir því í rauninni ekki á því seinna. Þótt ég hafi mikla samúð með þeirri siðferðiskennd að það sé einfaldlega rangt að drepa dýr til matar er ég ekki alveg þeirrar skoðunar sjálfur, alla vega ekki enn þá. Kannski breytist það með aldrinum, ég þori ekki að spá fyrir um það.

Ég nálgast þetta þannig að ég sé ýmislegt batna í heiminum í gegnum mannkynssöguna, eða flest ef út í það er farið. Við erum fleiri en nokkru sinni fyrr, við erum heilbrigðari en nokkru sinni fyrr, við lifum lengur en nokkru sinni fyrr, við erum ólíklegri en nokkru sinni fyrr til þess að fá einhverja hræðilega sjúkdóma og líklegri en nokkru sinni fyrr til að fá lækningar við þeim sjúkdómum. Þetta hefur ákveðna fylgifiska í för með sér sem eru ekki endilega jafn jákvæðir en almennt finnst mér heimurinn hafa batnað heilmikið í gegnum mannkynssöguna.

Eitt af því sem hefur batnað mjög mikið í gegnum aldanna rás, og yfirleitt í kjölfar einhverra hryllilegra mistaka, er það sem við getum kallað almennt siðferði. Það hefur batnað mjög mikið, andstætt því sem margir halda. Margir halda kannski að það séu fleiri stríð háð núna en áður. Það er rangt. Við erum hins vegar meira meðvituð um stríðin, sem er gott. Þá erum við reiðubúin að stöðva þau eða fyrirbyggja að þau eigi sér stað yfir höfuð. Hörmungar stríðs voru almennt ekki jafnt fyrirferðarmiklar í almennu viðhorfi fólks til þeirra áður, ekki eins og það hvernig hetjugangurinn var dásamaður í stríðsmönnum á sínum tíma, og er nú reyndar ekkert lengra síðan en rétt rúm öld. Það var ríkjandi viðhorf í Evrópu þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst að stríð væri eðlilegur hluti af mannlegu samfélagi og það væri á einhvern hátt glæsilegt og aðdáunarvert að fara í stríð og verða einhvers konar stríðshetja. Þetta er ekki viðhorf sem ég myndi segja að væri almennt í dag. Fólk lítur á stríðsrekstur sem slæman hlut sem eigi að forðast eftir fremsta megni og að stríð séu alls ekki eðlilegt ástand samfélaga.

Annað sem hefur batnað mjög er að fólk, flest fólk, er á því að pyndingar séu eitthvað sem eigi aldrei nokkurn tímann að eiga sér stað. Það er að vísu að verða ákveðið bakslag þar þökk sé forseta Bandaríkjanna, sem ég er að reyna að hemja mig við að nota ekki einhver fúkyrði yfir, Donald Trump. Hann sagði t.d. í kosningabaráttu sinni um svokallaðar vatnspyndingar að honum þætti þær mjög góðar en bara ekki nógu harðar. Hann lofaði að gera pyndingar miklu verri. Forseti Bandaríkjanna kallaði beinlínis eftir því og sagðist ætla að standa fyrir því að verri pyndingar yrðu notaðar, bara ef það vefst enn þá fyrir einhverjum hversu gjörsamlega snælduvitlaus sá brjálæðingur er. Enn er ég að reyna að hemja tilfinningar mínar gagnvart honum.

Einnig hafa fordómar dottið úr tísku. Jafnrétti er komið í tísku, en það er alltaf hætt við því að það verði ákveðið bakslag. Ég hygg að það hafi gerst nokkrum sinnum í mannkynssögunni að einhvers konar bakslag verði í siðferðisþróuninn. Það á sér því miður stað, alla vega vestan hafs gagnvart pyndingum og sömuleiðis fordómum. Fordómar eru einhvern veginn ekki jafn mikið tabú og þeir voru orðnir. Sú þróun er slæm og sú þróun er bakslag. Mér finnst allt bakslag mjög slæmt.

Mér finnst að siðferðisvitund okkar eigi alltaf að þróast í þá átt að bera meiri virðingu fyrir lífi og vera minna sólginn í að refsa, minna sólginn í að meiða, jafnvel ef við teljum þá hluti nauðsynlega til að ná einhverjum tilgangi, eins og fangelsisvist sem við beitum sem neyðarúrræði en af illri nauðsyn. Við gerum slíka hluti af illri nauðsyn, þetta er ekki eitthvað jákvætt.

Hvort sem það er rétt eða rangt þá hefur siðferðisvitund fólks í heiminum, a.m.k. verulega stórs hluta af honum, þróast í þá átt að hvalveiðar séu siðferðislega rangar. Jafnvel þótt ég taki ekki sjálfur undir það sjónarmið enn þá, alla vega ekki akkúrat núna, finnst mér mjög mikilvægt að bera virðingu fyrir þeirri skoðun að það sé rangt að meiða eitthvað, rangt að drepa dýr. Sú hugsun er klárlega í rétta átt, miklu frekar en það að í lagi sé að fara illa með dýr eða drepa þau. Ég sé það frekar sem hluta af siðferðisþróun en einstaka siðferðilega ákvörðun.

Hvað varðar ímyndina út á við, sem er þáttur í því sem er nefnt í þingsályktunartillögunni og alveg með réttu, spyr ég mig annarrar spurningar en endilega þeirrar hvað útlendingum finnst um hvalveiðar Íslendinga. Mig langar líka að spyrja: Hvernig viljum við vera sem mest til fyrirmyndar? Hvernig verðum við sem mest til fyrirmyndar alveg óháð því hvað einhverjum öðrum finnst um það? Hvernig verðum við sem mest til fyrirmyndar samkvæmt okkar eigin gildismati? Hver er metnaður okkar í því, ekki bara til að líta vel út á út á við?

Á lokamínútum mínum langar mig að nefna eitt sem mér hefur oft fundist pínulítið þvælast fyrir umræðunni, en sem betur fer minna í seinni tíð, og það er það sem ég ætla að kalla þjóðernisþrjósku. Það er auðvitað vel þekkt að Íslendingar eru mjög stoltir af því að vera sjálfstætt ríki, og eðlilega, en stundum brýst sú ágæta tilfinning út í ákveðinni þrjósku gagnvart erlendum áhrifum, í raun og veru án tillits til þess hvort erlendu áhrifin eru jákvæð eða neikvæð. Við sjáum þetta náttúrlega víða í ýmissi umræðu en þegar kemur að hvalveiðum hef ég, a.m.k. þar til frekar nýlega, skynjað ákveðið stolt í umræðunni, stolt í villimennskunni, stolt af því að við séum svo hrá og föst í hefðum eða eitthvað slíkt, ég er ekki viss hvernig ég á að orða það.

Ég er almennt á móti slíkri þjóðernisþrjósku. Mér finnst að við eigum að verða fyrir erlendum áhrifum. Mér finnst líka að við eigum að taka þátt í því að vera áhrifavaldar annars staðar. Ég sé ekkert sjálfstætt gildi í því að gera hlutina áfram eins og við gerum þá aðeins vegna þess að við gerum þá á einhvern ákveðinn hátt. Það minnir mig reyndar á ESB-umræðuna sem er oft á þá leið að þetta sé aðlögunarferli. Af hverju er það slæmt? Er ekki betra að við notum sama rafmagnstengið? Er ekki betra að við notum sömu formúluna til að reikna út vísitölur og svoleiðis? Er það ekki skynsamlegt? Fólk er oft hrætt við erlend áhrif einungis vegna þess að þau eru erlend.

Að því sögðu geta erlend áhrif alveg verið slæm, en þá eigum við að meta þau og hafna þeim út frá því að þau séu slæm, ekki af því að þau eru erlend. Það kemur málinu ekki við að mínu mati hvort áhrifin eru erlend eða ekki.

Með hliðsjón af því finnst mér einsýnt að við eigum að taka þátt í jákvæðri þróun siðferðisþroska mannkyns. Við gerum það með því að vera til fyrirmyndar. Þar sem ég sé ekki fram á að við getum samkvæmt því gildismati komið erlendum aðilum á þá skoðun „okkar“ að hvalveiðar séu í lagi finnst mér að við eigum að aðlagast heiminum og tímanum og banna hvalveiðar ásamt því að reyna að vera til fyrirmyndar á öðrum siðferðissviðum.