149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og vangavelturnar. Þótt ég hafi skoðun á málinu núna án þess að hafa séð þessi gögn þá útilokar það ekki að ég skipti um skoðun þegar ég sé gögnin, sér í lagi ef þau fela í sér einhverjar virkilega góðar ástæður fyrir því að veiða þessa hvali. Mér dettur eitt í hug. Það er t.d. að hvalirnir éti svo mikinn fisk að það setji einhvern veginn lífkerfið í uppnám. Það eru góð rök. En þá væri það samt sem áður ill nauðsyn, svona eins og fangelsi og annað sem við álítum ekki jákvætt í samfélaginu okkar og myndum ekki beita eða byggja eða gera nema vegna þess að við teldum okkur tilneydd. Í því skyni getur vel verið að við þurfum að veiða þessa hvali. Ég hef bara ekki séð neitt á borð við það enn þá sem mér finnst sannfærandi, kannski kemur það í ljós við þetta, það má vel vera. Ég er alltaf til í að skipta um skoðun ef ég fæ ný gögn, það er reyndar beinlínis í grunnstefnu Pírata og ætti að vera almenn skynsemi, en er því miður ekki eins og frægt er orðið.

Hvað varðar tilfinningarök þá borða ég einmitt eins og hv. þingmaður kjöt og vil helst bara borða kjöt ef ég kemst upp með það samkvæmt læknisráði og fólki sem ég umgengst. En ef vinaríki okkar og ríki sem við viljum vera í slagtogi við siðferðilega, ríki sem stunda lýðræði, eru á móti pyndingum og dauðarefsingum o.s.frv., ef þau ríki væru jafn hatrammlega á móti beljudrápi og þau eru gegn hvalveiðum, þá myndi ég sennilega styðja það að við myndum banna beljudráp, jafnvel þótt mér finnist persónulega ekkert að því að drepa og borða þær eins og er.

Það er þróunin sem mér er annt um, siðferðisþróunin, yfir mörg hundruð eða þúsund ára tímabil sem mér þykir svo vænt um. Ég vil (Forseti hringir.) að við séum með í því, jafnvel þótt ég sé sjálfur enn þá aðeins of frumstæður.