149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það þýðir samt ekki að hlaupa frá eigin orðum, hvort sem það eru fulltrúar Vinstri grænna í sáttanefndinni eða hér. Það hefur komið fram að flokkurinn vill tímabindingu samninganna og ég held einmitt að orð forsætisráðherra núna varðandi það að hún telji þetta vera tímabundnar veiðiheimildir sé risamál. Það er risamál og kallar á gríðarlega umfjöllun fyrir nefndinni og ég óska eftir því að þetta mál fari til nefndarinnar milli umræðna. Annars vegar er einn flokkur sem lítur á þetta sem ótímabundnar veiðiheimildir, sem kallar þá fram mjög mikinn ófyrirsjáanleika fyrir útgerðirnar, og síðan eru tímabundnar veiðiheimildir og forsætisráðherra gat ekki sagt til hvers langs tíma. Þetta kallar á mikla umræðu í nefndinni.

Ég furða mig enn og aftur á þessum í rauninni veika vilja og sýn forsætisráðherra í þá veru að leita sátta í sjávarútvegi. Ég átta mig bara ekki á því af hverju markvisst var, áður en frumvarpið var lagt fram, sneitt fram hjá því að tala við stjórnarandstöðuna. Forsætisráðherra svaraði því reyndar ekki af hverju þetta mál er ekki unnið í samræmi við stjórnarsáttmálann sem kallar á aukið samráð, aukið samtal, að reyna að efla veg og virðingu þingsins. Þetta mál er þvert á móti þannig og ber þess merki að farið er í gagnstæða átt. Það gerist m.a. á vakt Vinstri grænna en það er ekki síst á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins hvernig því er ýtt í gegnum ríkisstjórn.

Um leið og ég þakka forsætisráðherra fyrir svörin þá kalla þau á mikla umræðu. Ég kalla eftir því að þetta mál fari inn í nefndina á milli 2. og 3. umr.