149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:37]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Nú afgreiðir Alþingi fjárlög í byrjun desembermánaðar, rétt um ári eftir að frumvarp að fjárlögum var lagt fram í fyrra og réttum tveimur árum eftir að við ræddum hér frumvarp til fjárlaga við fordæmalausar aðstæður, þing án starfandi meiri hluta. Það þarf ekki að velkjast í vafa um að afgreiðsla okkar er nú ígrundaðri og betur undirbúin en fyrir ári síðan. Tekist hefur að halda samfellu á milli fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps í fyrsta sinn.

Samþykkt þessa frumvarps festir enn frekar í sessi þá stefnu sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undirbyggði með stjórnarsáttmála sínum og við sjáum þess stað í því fjárlagafrumvarpi sem við greiðum senn atkvæði um.

Í 2. umr. lagði ég áherslu á sterka stöðu ríkissjóðs og þá umbreytingu sem orðið hefur í fjármálum ríkisins. Skuldir hafa lækkað verulega og við höfum á ný tækifæri til að byggja upp og bæta velferðarkerfið okkar. Allt þetta má sjá merki um í frumvarpinu sem nú er komið til lokaafgreiðslu. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði svo í ræðu sinni hinn 5. desember sl. undir dagskrárliðnum störf þingsins, með leyfi forseta:

„Við getum deilt endalaust um það hvort glasið er hálffullt eða hálftómt, en við hljótum þó að fagna því þegar góðar fréttir berast af stöðu ríkissjóðs sem nýlega keypti upp skuldabréf af Seðlabanka Íslands, samtals að fjárhæð 24 milljarðar, þannig að heildarskuldir ríkisins eru núna 843 milljarðar eða rétt um 30% af landsframleiðslu. Hrein staða ríkissjóðs á grundvelli laga um opinber fjármál, þ.e. þegar sjóður og innstæður hafa verið dregnar frá heildarskuldum, nemur því um 653 milljörðum. Þetta eru 23% af vergri landsframleiðslu og hafa algjör umskipti orðið í ríkisfjármálunum á undanförnum árum sem er sérstakt gleðiefni. Það er gleðiefni, ekki síst fyrir unga fólkið sem horfir upp á að við sem eldri erum erum hætt að gefa út víxla. Við erum hætt að taka út lífskjör komandi kynslóða. Við erum þvert á móti farin að byggja aftur upp. Það eru gleðifregnir og það er eitthvað sem við eigum að lofa okkur sjálfum, en ekki síst yngra fólkinu, að við munum halda áfram að gera af trúmennsku.“

Þetta er kjarni efnahagsstjórnarinnar sem við megum ekki missa sjónar á. Þetta er grundvöllur að því að við rækjum sem best hlutverk okkar í þessum sal Alþingis, að við förum vel með það þýðingarmikla hlutverk í samfélagi okkar. Því er mikilvægt að okkur takist að setja ábyrg fjárlög og standa í ístaðinu þannig að allt gangi skýrt og skorinort eftir.

Á undanförnum árum hefur verið ágætur afgangur af ríkissjóði. Það er grundvallarmál í vaxandi hagkerfi. Það er grundvallarmál og hagstjórnarlegt hlutverk ríkisfjármála á hverjum tíma að vera hamlandi í ofþenslu en hvetjandi í samdrætti. Til þess að við getum sinnt þessu sveiflujafnandi hlutverki verður að hafa kjark og þor til að hemja útgjaldavöxt. Um það má deila hvort svo hafi verið en við höfum sannarlega þurfti að auka útgjöld til velferðarmála, til menntamála og til samgöngumála, til grunnþátta samfélags okkar.

Það skiptir máli að bætt skuldastaða ríkissjóðs hefur skapað tækifæri til að breyta íþyngjandi vaxtakostnaði í betra heilbrigðiskerfi, í betra menntakerfi, í sterkara velferðarkerfi og hefja á ný uppbyggingu þeirra þátta sem skapa samfélagi okkar framtíðarhagvöxt. Hagvöxtur er forsenda framfara og sóknar til að við getum mætt áskorunum næstu ára. Þær eru miklar. Ég nefni sem dæmi hækkandi aldur þjóðarinnar sem við fögnum að sjálfsögðu. Að ekki sé minnst á það stóra verkefni sem glíman vegna loftslagsmála er. Í þessu frumvarpi eru fyrstu skrefin tekin í því mikla og stóra verkefni. Ég vil samt rifja það upp hér að þar gildir að fara fram af ábyrgð. Ég hef ítrekað sagt úr þessum ræðustól að glíman við að binda meira en við losum, að ná jöfnun og sókn, getur líka verið verðmætt tækifæri til að treysta og styrkja byggð um land allt. Til þess þarf nýja nálgun og viðurkenningu á þeim tækifærum sem landið okkar veitir.

Engum dylst að við höfum aukið útgjöld við ýtrustu mörk. Við höfum vonandi ekki farið fram af brúninni en það er stutt þangað. Slíkur vöxtur sem í þessu frumvarpi er og þeim fjárlögum sem við nú samþykkjum og samþykktum í fyrra getur ekki haldið áfram. Samt er það svo að mörgum hér finnst við ekki auka útgjöld nægjanlega mikið. Hin hliðin á þessu öllu er aukin skattheimta sem undirbyggir þessi útgjöld. Meira að segja hafa verið fluttar tillögur í þessum sal um að auka enn frekar skattheimtu, stækka enn frekar báknið og auka útgjöldin verulega. Þá gleyma menn ekki að rifja hér upp að vinsælasta fjármögnun allra góðra verka sé að hækka gjöld á fiskveiðar. Hve oft höfum við eytt þeim krónum sem við erum talin geta sótt til fiskveiða, í umræðum um fjárlagafrumvarp á þessu hausti?

Forseti. Ég tel ekki upp hve mörgum milljörðum við höfum bætt í nauðsynleg og brýn viðfangsefni. Það er tilgangslaust ef fólk finnur það ekki á eigin skinni að hér hefur orðið stefnubreyting. Ég nefni þó enn og aftur eina tölu, að skuldir hafa lækkað. Og ef við greiddum sambærilega vexti af lánum okkar nú og fyrir fimm árum myndum við ekki leggja 30 milljarða kr. til velferðarmála, til menntamála og til að viðhalda vegakerfi, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Það er líka umhugsunarvert að eftir að hafa hækkað framlög til almannatrygginga um rétt um 70 milljarða á fimm árum virðist helst mega merkja á almennri umræðu að fáir hafi fengið kjör sín bætt. Það er því mikilvægt að dýpka þá umræðu, draga ekkert undan og halda áfram að gera betur og gera betur við þá sem enn búa við lökustu kjörin. Það kennir okkur líka að við verðum að vera mun meira upptekin af því hvernig við nýtum fjármuni skattgreiðenda. Þetta eru jú þeirra fjármunir.

Virðulegi forseti. Allt byggir þetta sem við fjöllum um hér á öflugu og sterku atvinnulífi. Við getum vænst minni hagvaxtar en undanfarin ár. Það skiptir því máli að í þessu frumvarpi er verið að skapa ramma og undirbyggja fyrir næstu kjarasamninga til að við getum og atvinnulífið geti þar byggt á raunsönnum grunni.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð um sókn í endurreisn innviða, um aukna velferð og ábyrga hagstjórn. Afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins í dag staðfestir það.