149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

úthlutun kvóta í makríl og veiðigjöld.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það sem mér finnst almikilvægast í þessu máli af því sem hefur borið á góma í umræðum um málið eftir að dómurinn féll um helgina er að það er ekkert í dómnum sem gefur ástæðu til að efast um það skýra ákvæði í lögum um fiskveiðistjórnarkerfið að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það er ekkert í dómnum sem gefur tilefni til þess að segja að vaknað hafi vafi um það. Hins vegar ætla ég að taka undir með hv. þingmanni í fyrri fyrirspurn hans. Það er mjög mikilvægt að við náum saman um auðlindaákvæði í stjórnarskrá til að undirbyggja þessi lagaákvæði með enn skýrari hætti. Ég tel ekki að þessi dómur grafi undan því. Dómurinn fellur kannski fyrst og fremst, eftir því sem mér hefur verið greint frá, á lögum um veiðar utan lögsögunnar sem voru sett á sínum tíma þegar þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra var Þorsteinn Pálsson. Það er því alllangt um liðið síðan þau lög voru sett. Ég tel þess vegna ekki að dómurinn setji neinn vafa á það (Forseti hringir.) hvað varðar fjármögnun. Þá vil ég ítreka að mér finnst ekki rétt að blanda saman umræðum um (Forseti hringir.) fiskveiðistjórnarkerfið og lögum um álagningu veiðigjalda.