149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég skil hvað hv. þingmaður er að fara þegar hann ræðir samfélagslegan ábata. Ég náði þó ekki alveg utan um dæmið eins og hann lagði það upp, skal ég viðurkenna. Ég vil hins vegar taka fram að mikilvægt er ef sátt næst um einhverja þessara hugmynda — vegna þess að við viljum flýta framkvæmdum og auka öryggi, sem er samfélagslegi ábatinn til að mynda í því dæmi sem hv. þingmaður fór yfir — að þær séu í samræmi við þann lagaramma sem opinber fjármál eru. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Þess vegna verður útfærslan að vera í samræmi við þetta og það höfum við ekki séð enn þá. Við höfum ekki séð endanlega útfærslu. Þetta er á hugmyndastigi. Við erum í raun og veru bara að samþykkja samgönguáætlun eins og lagt var upp með hana. Þess vegna sagði ég að hún væri fullfjármögnuð og í samræmi við það sem lagt var upp með.

Vissulega eru hér settar fram hugmyndir og færð rök fyrir því að mæta þeim kröfum sem hafa verið uppi um að öryggisins vegna þurfi að fara í framkvæmdir fyrr en er á áætluninni á Reykjanesbraut, á Vesturlandsvegi og á æðum út á og um Kjalarnesið og Suðurlandsveginn, á æðum kringum höfuðborgarsvæðið. Ég náði ekki að svara nákvæmlega tölunum í dæminu sem hv. þingmaður lagði upp með en það er einmitt slík greining sem við verðum að fá nákvæmt dæmi um þegar við sjáum nánari útfærslu og boðað frumvarp hæstv. samgönguráðherra.