149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er af sama meiði, nema hvað ég er til í að skófla þessari grein algerlega út. Það er í rauninni ekkert sem segir að trúar- og lífsskoðunarfélög eigi sérstaklega að fá einhvern frið umfram öll önnur frjáls félagasamtök. Af hverju ætti Rauði krossinn ekki að fá helgidagafrið eða frið til þess að stunda starf sitt á einhvern máta? Af hverju fá trúfélög og lífsskoðunarfélög eitthvað meira umfram það? Ætti að setja slíkt ákvæði um stjórnmálaflokka, sem eru vissulega að hluta til ákveðin lífsskoðunarfélög, ef maður má orða það svo, þó að þeir séu ekki með nákvæmlega þannig skrásetningu?

Við erum með fullt af almennum lögum um ákveðnar óspektir og truflun sem ættu að ná yfir þetta, myndi ég halda. Ef ekki, þá er það kannski ákveðið vandamál sem þyrfti að leysa almennt séð fyrir starfsemi félagasamtaka. En ekki sérstaklega fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög. Þau ættu að geta starfað alveg eins og öll önnur félagasamtök án þess að þó fá einhverja möguleika á að sekta einhverja eða svipta starfsleyfi. Talað var um leyfi, starfsleyfi, varðandi sölu áfengis á einhverjum undarlegum forsendum í greinargerðinni þegar frumvarpið var upprunalega samið. Orðalagið eins og það er núna er gríðarlega vítt hvað varðar sektir. Það virðist vera að trúfélögin geti næstum skilgreint það sjálf hvað þau telji óspektir eða truflun. Svo ónákvæmt orðalag, svo víðtækt orðalag, finnst mér vera ótækt og almennt séð ætti þetta ekkert að vera neitt öðruvísi en bara að trufla almennt félagsstarf yfirleitt en ekkert sérstaklega fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög.