149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa endurskoðun laga og reglugerða um uppkaup á bújörðum og öðru nytjalandi, svo og óbyggðum. Markmið með endurskoðuninni verði m.a.:

a. að setja skýrar reglur sem miði að því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi;

b. að huga að almennum viðmiðum, svo sem landstærð, nýtingu landgæða og fjölda landareigna sem heimilt er að sé á hendi eins og sama aðila;

c. að horfa til umhverfissjónarmiða og ákvæða um almannarétt í allri lagaumgjörð og taka þar m.a. mið af sérstökum aðstæðum varðandi landbúnaðarland, óbyggðir og náttúruauðlindir (svo sem vatn og jarðhita);

d. að tryggja að ekki sé innbyrðis misræmi milli laga og reglugerða.“

Frú forseti. Málið hefur verið lagt fram áður í nokkur skipti en ekki fengið framgang en tilefni þess frá því að það var upphaflega flutt er í sjálfu sér óbreytt og í ljósi þess að enn eru erlendir auðmenn að kaupa mikilvægar landeignir á Íslandi — eins og við munum t.d. með Grímsstaði á Fjöllum og svo jarðir í Vopnafirði og víðar — er í rauninni ástæða til að málið sé tekið fyrir og lagt fram aftur.

Það ætti því ekki að koma á óvart að flest ríki setja sér lög og reglur sem takmarka á ýmsan hátt aðilaskipti að fasteignum, ekki síst landbúnaðarlandi. Þessar reglur miða m.a. að því að tryggja að ríkisvaldið hafi með einhverju móti stjórn á viðskiptum með land og yfirsýn yfir eignarhald á því.

Víða er lögð áhersla á að halda eignarhaldi á landi og auðlindum í almannaeign, en stjórnvöld ríkja þar sem einkaeignarréttur á landi er í hávegum hafður eru mörg hver meðvituð um mikilvægi þess að halda eignarhaldi á landi í höndum eigin þegna. Aukin meðvitund um samspil eignarhalds á landi og réttar til ráðstöfunar á auðlindum hefur m.a. orðið til þess að ríki sem í umtalsverðum mæli hafa misst eignarhald á landi út fyrir landsteina eru nú sum hver að leggja bann við landsölu til erlendra aðila. Önnur ríki leggja áherslu á skýrar skorður og takmarkanir í þessum efnum og í sumum tilvikum er nú reynt að vinda ofan af landsölu sem þegar hefur átt sér stað. Má þar til að mynda nefna ríki í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu.

Inn í þessar umræður hafa blandast vangaveltur af stjórnmálalegum toga sem tengjast áhrifum auðmanna, alþjóðlegra auðhringa og erlendra ríkja í gegnum eignarhald á landi og auðlindum. Slík umræða samtvinnast áhyggjum manna af þverrandi auðlindum jarðar, ekki síst vegna mikilvægis þeirrar auðlindar sem kemur til með að verða einna dýrmætust í framtíðinni, þ.e. vatnsins.

Á alþjóðavísu er einnig æ betur staðfest hvílík verðmæti felast í eignarhaldi á jarðnæði og landi, burt séð frá þeim auðlindum öðrum sem slíku landi fylgja. Í því sambandi má til að mynda benda á að gott ræktar- og landbúnaðarland er víða orðið af skornum skammti og það verður æ verðmætara á heimsvísu.

Tiltölulega lítil almenn umræða hefur farið fram hérlendis um þessi efni og mörgum spurningum er enn ósvarað. Þær snúa ekki einungis að því hvernig varðveita skuli landbúnaðarland til frambúðar í heimi sem horfir fram á að þurfa að fæða milljarða manna við erfið skilyrði. Þær spurningar snúa einnig að því hvernig skuli til að mynda farið með öræfi landsins, víðerni, óbyggðir, landslag, náttúrufarsleg gæði og jarðsögulegar minjar og á hvaða forsendum land skuli metið. Þegar rætt er um framtíðarsýn fyrir land og þjóð í þessum efnum skiptir eignarhald á landi og auðlindum augljóslega sköpum.

Samkvæmt íslenskri löggjöf helst í hendur eignarhald á landi og eignarhald á þeim auðlindum sem landareigninni fylgja. Í 3. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, frá 1998, er kveðið á um að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu. Í 1. gr. þeirra laga eru auðlindir skilgreindar og sagt að átt sé við „hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna má úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við“. Þarna er átt við grunnvatn „og öll gosefni og önnur steinefni, málma, málmblendinga og málmsteindir, kol, jarðolíu, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna“.

Enda þótt skipulagsyfirvöld hafi í hendi sér að setja ýmsar takmarkanir á nýtingu auðlinda liggur í augum uppi að eignarréttur á landi hérlendis er mjög afgerandi og hefur í för með sér yfirgripsmikinn einkaeignarrétt á auðlindum.

Í því samhengi þarf vart að fjölyrða um stöðu laga og reglna hérlendis þegar kemur að vatnsauðlindinni sérstaklega. Íslendingar búa enn við lagaumhverfi sem skilgreinir grunnvatn, þaðan sem m.a. drykkjarvatn landsmanna er fengið, sem hluta af landareign. Það er mikil skammsýni að líta á slíkt sem minni háttar mál eða sem spurningu um viljayfirlýsingu af hálfu hugsanlegra eigenda lands. Enn hefur ekki verið sett heildstæð löggjöf sem tekur til alls vatns, yfirborðsvatns jafnt sem grunnvatns, og sem breyti stefnunni í þessum efnum. Óhætt er hins vegar að fullyrða að til framtíðar litið sé þetta eitt mesta hagsmunamál komandi kynslóða hérlendis.

Í þessu samhengi verður einnig að gæta að ýmsum öðrum þáttum er snúa að almannarétti. Samkvæmt lögum er hægt að tryggja aðgengi almennings að eignarlandi að einhverju leyti og það skiptir vissulega máli þegar um er að ræða eignarhald á náttúruperlum og víðernum landsins.

Hitt er þó ljóst að það hefur reynst æ erfiðara í framkvæmd að tryggja óskoraðan rétt almennings til að fá að njóta náttúrugersema sem eru í skilgreindri einkaeign. Fullyrða má að réttur almennings hafi á ýmsan hátt verið fyrir borð borinn eftir að fyrirtæki og fjárfestar sem ekki stunda búskap fóru að kaupa upp jarðir í verulegum mæli. Gömlum þjóðleiðum og óræktuðu landi hefur verið lokað og girt hefur verið fyrir umferð vegfarenda á svæðum sem réttilega ætti að vera allra að fá að njóta. Einboðið er að halda gömlum leiðum opnum fyrir almenna vegfarendur og að bílvegir þeir sem haldið er við af opinberu fé standi öllum til boða. Því fjær sem eignarhaldið er íbúum landsins þeim mun erfiðara er í reynd að framfylgja rétti almennings til landsins og gæða þess. Full ástæða er til að hafa þetta í huga við endurskoðun laga og reglna í þessum efnum með almannarétt að leiðarljósi.

Eins og ítarlega verður gerð grein fyrir í II. kafla í greinargerðinni hefur þróun löggjafar hér á landi í seinni tíð verið í þá átt að aflétta hömlum á viðskiptum með fasteignir og afnema heimildir stjórnvalda til að hafa áhrif á aðilaskipti að þeim. Upp á síðkastið hefur þannig verið gengið gegn þeirri meginforsendu sem frá upphafi fullveldis íslenska ríkisins var rauður þráður í umræðum um þessi mál — þeirri nálgun að vegna smæðar þjóðarinnar og víðfeðmis landsins væri þörf á strangari löggjöf í þessum efnum hérlendis en tíðkast víða erlendis. Þessu hefur í reynd verið snúið við og opnað á heimildir hér sem önnur mun fjölmennari ríki setja skýrari skorður við.

Í ljósi nýliðinna atburða sem við þekkjum og mikils áhuga erlendra auðmanna til að komast yfir bæði jarðnæði og auðlindir á Íslandi er brýnt að skerpa á allri sýn, löggjöf og reglum sem varða bæði eignarhald á landi og auðlindum hérlendis. Stjórnvöld hafa þegar lýst því yfir að þau hyggist endurskoða lög um auðlindir í jörðu. Á meðan engar niðurstöður liggja fyrir í þeim efnum er lagaumhverfið óbreytt.

Í þessu samhengi hefur minna farið fyrir umræðu um verðmæti lands í sjálfu sér og þeirri þróun sem þar hefur átt sér stað bæði heima og erlendis. Þær grunnforsendur sem ávallt var lagt upp með — þ.e. að fámennu og víðfeðmu ríki væri nauðsynlegt að halda vel utan um uppkaup á landi og setja þröngar og skýrar reglur þar að lútandi — hafa ekki verið virtar. Í stað þess að hér séu settar þrengri skorður en annars staðar er lagaumgjörðin opin, óljós og veik þegar að þessum atriðum kemur. Spyrja má hvort sú þróun sé í reynd í takt við þjóðarviljann og hvort stórfelld landakaup af hálfu erlendra auðmanna, auðhringa eða jafnvel ríkja séu í sátt við fólkið í landinu. Fullyrða má í það minnsta að þær stórvægilegu breytingar sem á síðustu áratugum hafa verið gerðar á löggjöf og regluverki hérlendis í þessum efnum þarfnist mun ítarlegri, opnari og upplýstari umræðu en hingað til hefur farið fram svo að ljóst megi verða hvert beri að stefna.

Eins og greinargerðin ber með sér hefur í reynd sárlega vantað upp á að þessi mál séu rædd í þaula og að dregin hafi verið upp sú stefna til framtíðar sem rétt þykir að fylgja. Þar hlýtur réttur komandi kynslóða að vega þyngst en ekki stundarhagsmunir. Við skoðun málsins ættu menn að geta sameinast um að setja skorður við meiri háttar uppkaupum á landi, jarðnæði og auðlindum hérlendis þar til alvöru stefnumótun, opin umræða og heildarendurskoðun viðkomandi lagabálka hefur farið fram.

Fram kemur í II. kafla, þar sem verið er að tala um eignarréttinn, að í 2. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar megi með lögum takmarka rétt erlendra aðila til að eiga tvenns konar eignir á Íslandi, þ.e. fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi.

Farið er mjög ítarlega yfir þetta og ég hvet fólk til að kynna sér það nánar.

Með lögum nr. 136/2001 var gerð sú breyting á fasteignalögunum að felldur var niður áskilnaður um að útlendingur þyrftu að hafa átt hér lögheimili í fimm ár til að geta eignast fasteign. Eftir breytinguna var því nægjanlegt fyrir erlendan aðila að eiga lögheimili hér á landi til að geta öðlast réttindi yfir fasteign. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 136/2001 er réttur útlendings sem öðlast eignarrétt yfir fasteign með þessum hætti bundinn því að hann eigi hér áfram lögheimili. Flytji hann af landi brott verður hann því að sækja um leyfi samkvæmt lögunum.

Síðan hafa verið gerðar breytingar á mörgum öðrum lögum, m.a. jarðalögunum. Jarðalög, nr. 81/2004, fólu í sér miklar breytingar frá eldri lögum, ekki síst að því leyti að dregið var mjög úr takmörkunum á ráðstöfunarrétti landeigenda. Með lögunum má segja að felldar hafi verið brott allar helstu heimildir stjórnvalda til að hafa hönd í bagga með viðskiptum með fasteignir sem falla undir lögin.

Í almennum athugasemdum við það frumvarp kemur fram að ýmsar breytinganna eigi rætur að rekja til þess að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi gert athugasemdir við nokkur ákvæði jarðalaga og talið þau brjóta gegn EES-samningnum. Meðal annars að búsetuskilyrði brytu í bága við 31. gr. EES-samningsins, nema sýnt væri fram á að ákvæðið væri nauðsynlegt til að ná markmiðum laganna. Það hefur Íslandi ekki tekist. Varðandi 30. gr. laganna, um forkaupsrétt, taldi stofnunin að framkvæmd þess væri óskýr og bryti í bága við fyrrnefnd ákvæði að því marki sem hún fæli íslenskum stjórnvöldum ákvörðunarvald um frjálst fjármagnsflæði að þessu leyti.

Sumar þessara breytinga voru rökstuddar með vísan til athugasemda ESA sem áður er vikið að. Óhætt er hins vegar að segja að gengið hafi verið mun lengra með breytingunum en EES-réttur krafðist. Hægt hefði verið að halda almennum takmörkunum á ráðstöfunarréttinum ef tryggt hefði verið að aðilar sem nytu EES-réttar og innlendir aðilar væru jafnsettir gagnvart þeim. Samhliða jarðalögum voru samþykkt ný ábúðarlög, nr. 80/2004, og fólu þau m.a. í sér afnám ábúðarskyldu á jörðum.

Aðeins um norska löggjöf, svona í lokin. Um heimildir til að öðlast fasteignarréttindi í Noregi gilda lög um leyfi til að öðlast réttindi yfir fasteign. Markmið þeirra er að stýra og hafa eftirlit með viðskiptum með fasteignir til að vernda framleiðslusvæði landbúnaðarins og aðra þýðingarmikla eignar- og nýtingarhagsmuni samfélagsins, m.a. hagsmuni komandi kynslóða, tillit til umhverfis, náttúru og útivistar, sem og búsetu.

Samkvæmt lögunum er meginreglan sú að leyfi stjórnvalda þurfi til að eignast fasteign í Noregi með þeim undantekningum sem kveðið er á um í lögunum, t.d. ef jarðir eru ekki yfir 10 ha og ræktað land þeirra ekki yfir 2,5 ha.

Í 9. gr. laganna eru sérstakar reglur um veitingu leyfa til kaupa á landbúnaðarlandi. Þar er kveðið á um þau sjónarmið sem leggja skal til grundvallar við ákvörðun um veitingu slíkra leyfa. Meðal þess sem líta skal til er hvort umsamið verð samrýmist forsvaranlegri verðþróun, eins og það er orðað, í samfélaginu, hvort markmið kaupandans samrýmast hagsmunum svæðisins, bæði hvað varðar byggð og auðlindanýtingu o.fl. Samkvæmt 11. gr. laganna er heimilt að setja skilyrði fyrir veitingu leyfa með hliðsjón af markmiði laganna.

Í dönskum lögum er meginreglan sú að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í Danmörku eða hafa áður búið þar í a.m.k. fimm ár þurfa leyfi dómsmálaráðuneytisins til að geta eignast fasteignarréttindi í Danmörku. Sama gildir um félög, fyrirtæki, stofnanir og aðrar lögpersónur sem ekki hafa heimilisfesti í Danmörku og erlend stjórnvöld. Heimildin er líka bundin við fasteignir sem nota á til heilsársbúsetu fyrir eigandann en ekki orlofsbústað og fasteignir sem eru forsenda þess að sá sem réttinn vill öðlast geti stundað sjálfstæða starfsemi eða innt af hendi þjónustustarfsemi.

Rétt er að geta þess að Danir hafa samið um undanþágu frá reglum um frjálsa fjármagnsflutninga að því er varðar fjárfestingar í húsnæði sem aðeins er notað hluta úr ári og viðhalda innlendri löggjöf á því sviði. Þarna gengum við mun lengra en við þurftum.

Takmarkanirnar mega þó ekki fela í sér mismunun á grundvelli þjóðernis. Þessi heimild getur skýrt þrengri heimildir dönsku reglnanna til að öðlast réttindi yfir orlofsbústöðum en heimildir íslensku reglugerðarinnar en hún skýrir þó tæpast mismun reglnanna að því er varðar frjálsa fjármagnsflutninga. Þetta er því eitt af því sem við þurfum að láta kanna betur.

Samkvæmt lögum um landbúnaðarjarðir er það meginregla að heimild til að öðlast réttindi yfir landbúnaðarjörð er háð því að eigandi taki upp fasta búsetu á jörðinni og gildir búsetuskyldan í tíu ár. Frá þessu eru þó vissar undantekningar. Sérstakar reglur eru um kaup félaga á landbúnaðarjörðum og eru þau leyfisskyld með nokkrum undantekningum.

Ég hef ekki tíma til að fara ítarlegar yfir löggjöf annarra landa í þessum efnum en ljóst er að gera verður yfirgripsmikla úttekt á þeim undanþágum sem aðildarríki EES-samningsins hafa í löggjöf sinni varðandi kaup og sölu á landi og öðrum fasteignum til erlendra þegna óháð því hvort þeir eru búsettir í öðrum ríkjum ESB eða utan landamæra sambandsins eða EES-svæðisins. Þar væri m.a. vert að skoða sérstaklega á hvern hátt og að hvaða marki búsetuskilyrði eru sett fyrir heimildum til eignarhalds. Rík ástæða er jafnframt til að fara yfir lagaumhverfi þeirra ríkja utan EES þar sem öflug umræða um þessi mál hefur farið fram og skýr stefnumótun samhliða lagasetningu hefur verið sett í forgrunn.

Frú forseti. Ég vona að þetta mál nái fram að ganga. Ég tel það mikilvægt og við þekkjum auðvitað öll umræðuna í samfélaginu og áhyggjur okkar af þeim uppkaupum sem eru nú þegar, að mínu mati, orðin allt of mikil mjög víða, því miður, í landi okkar. Ég tel því að ástæða sé til að bregðast við.