149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir allar þessar spurningar. Ég vona að ég hafi tíma til að svara þeim öllum, því ég hef svör við þeim öllum. Jú, eymdin mun aukast vegna þess að það verða fleiri aumir. Það er málið. Prósentan verður sú sama en við stækkum kökuna. Þeim fjölgar, þ.e. ef þetta frumvarp verður að lögum, sem eiga eftir að lenda í vandræðum. Engin gögn um að aðgengi auki drykkju? Jú, hv. þingmaður. Ég gæti t.d. fært þingmanninum nokkrar skýrslur frá Svíþjóð sem (Gripið fram í.) sýna fram á það. Og hvað er ofdrykkja, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Það er nefnilega grátt svæði. Og hófdrykkjan sem við höfum verið að tala um, sem er dagdrykkjan, sem skapar skorpulifrina, er hún ekki ofdrykkja? Jú, ég held að hún sé það. Ég held það, hv. þingmaður. Skiptir það máli hvort ríkið sé að selja og enginn annar? Það skiptir ekki öllu máli, en það hjálpar.

Ég man eftir því að í fyrri umræðu um þetta mál þá sögðu menn: Ja, hvað með skotvopn og flugelda og slíkt sem eru stórhættulegir hlutir? Til þess að fá byssuleyfi þarf maður að gangast undir próf og þarf að ganga með skírteini. Það væri þá kannski í lagi að þeir sem vilja kaupa brennivín fengju sér skírteini og létu meta hvort þeir væru hæfir til að fara með þessa vöru og presenteruðu það á hverjum degi? Ef þingmaðurinn myndi vilja leggja eitthvað slíkt til þá gæti ég alveg hugsað mér að íhuga það, þó að ég vilji kannski ekki alveg ganga svo langt.

En við þurfum ekki að þrátta um það að aukið aðgengi eykur neyslu. Og við þurfum heldur ekki að velta því fyrir okkur hvort það séu bara þessi 18% sem við vitum að verða alltaf höll undir áfengi, það er svona u.þ.b. það sem lýðheilsuupplýsingar segja okkur. Við gætum t.d. horft á það sem kom fram í Politiken fyrir nokkrum árum, þ.e. að 20% íbúa Kaupmannahafnar, sem eru þá u.þ.b. 200.000 manneskjur, fúnkera ekki daglega út af áfengisdrykkju. Og við erum ekki að tala um fyllibytturnar sem hv. þingmaður var að vísa hér til, við erum bara að tala um Jón og Gunnu sem fúnkera ekki á hverjum einasta degi, 200.000 manns í Kaupmannahöfn, vegna áfengisneyslu.