149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:35]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverð myndlíking með hraðaksturinn. Staðreyndin er hins vegar sú að við getum haft áhrif á löggjöf hér á Íslandi en við getum ekki haft áhrif á löggjöf um hraðakstur í Danmörku, Bandaríkjunum eða í öðrum löndum og sama gildir um auglýsingar á samfélagsmiðlum þar sem önnur lög gilda, þar sem áfengisauglýsingar eru heimilaðar. (Gripið fram í.) Nei, hv. þingmaður, við eigum ekki að eftirláta öðrum þjóðum að setja lög fyrir okkur alveg eins og þau eiga ekki að eftirláta okkur að setja lög fyrir sig. Við getum hins vegar barist gegn þessu með aukinni forvörn og fræðslu og með því að þær auglýsingar sem við gefum út innihaldi góðar fræðsluupplýsingar um skaðsemi áfengis sem vega þar upp á móti.