149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eitt af því sem við ræddum svolítið síðast þegar mál frá hv. þingmanni var til umræðu. Við sem búum í dreifðum byggðum þekkjum að hafa bara eina matvöruverslun. Í þessu máli er einmitt búin til undanþága um að það megi hafa í felum einhvers staðar á bak við eitthvað sem heitir áfengi, en það verður að hólfa langt í burtu.

Við þekkjum að búa á stað þar sem er aðeins ein verslun þar sem skólafólkið er í vinnu. Oft og tíðum er einn fullorðinn á vakt með skólafólkinu, jafnvel eitthvað að stússast á bak við, og svo þarf þetta unga fólk að standast félagaþrýsting við að afgreiða áfengi og er jafnvel sjálft ekki með aldur til þess. Það er jafnvel ekki hægt að manna búðir með tvítugu fólki heldur þarf að vera með yngra fólk. Það eru alls konar mál sem mér finnst vanhugsuð þegar kemur t.d. að því. Fyrir utan náttúrlega hvort það væri til ein eða tvær tegundir af einhverju öli og tvær tegundir af hvítvíni eða rauðvíni og annað slíkt. Allt svoleiðis er allt annar handleggur.