149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa töluvert rætt þetta í dag og túlkað þessa forsendu sem svo að þar sé beinlínis verið að tala um niðurstöðu kjarasamninga. En auðvitað er það svo að kjarasamninga við opinbera starfsmenn á eftir að gera og við munum að sjálfsögðu standa við kjarasamninga.

Það sem er í raun og veru undir í þessari tillögu til fjármálaáætlunar er að það er ekki eðlilegt að horfa til þess að launahlutfall hjá ríkinu vaxi í raun og veru fram í tímann án þess að neinar athugasemdir séu gerðar við það. Við höfum verið að vinna þar með tiltekin dæmi. Ef við horfum t.d. til þess að laun fari úr 24% af heildartekjum upp í 26% eru þar komnir 20 milljarðar í lokaútgjöld.

Það er auðvitað hægt að horfa til þess, sem hv. þingmaður hefur líka kallað eftir í umræðunni, hvernig við getum sparað í rekstri hins opinbera. Ég hef nefnt eitt dæmi sem er stafræn þjónusta. Ég get líka rætt almennt um endurmat útgjalda. Hafandi setið í ríkisstjórn sem þurfti að skera niður til að bregðast við óvæntum áföllum með mjög harkalegum hætti veit ég af reynslu að það er betra að reyna að vinna mun reglulegar að endurmati opinberra útgjalda. Það er ekki vegna þess að ég vilji skerða þjónustu hins opinbera. Eins og hv. þingmaður veit ósköp vel er mér mjög umhugað um hana. En þar með er ég ekki að segja að öll verkefni hins opinbera eigi rétt á sér um aldur og ævi.

Ég held að með því að leggja fram tiltölulega hóflegar forsendur í þessum málum séum við líka að boða það að við ætlum að gera alvöru úr því að endurmat útgjalda verði reglulegur liður í okkar áætlunum. Það á ekki endilega að vera sem viðbrögð við kreppuástandi heldur á það að vera (Forseti hringir.) eðlilegur hluti af því hvernig við umgöngumst opinber fjármál.