149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum samgöngumálin í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Þegar við gerum það er varla annað hægt en að ræða langstærsta verkefni okkar næstu fimm árin og mun fleiri ár þar á eftir, sem er að sporna við hlýnun loftslags á alvöruhátt.

Við höfum langþráða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem er mikilvægt skref í baráttunni gegn þeirri miklu vá sem að okkur steðjar. En mikið vill meira og ég tilheyri þeim hópi sem hefði gjarnan viljað sjá djarfari og framsýnni skref stigin í samgöngumálum þegar kemur að grafalvarlegri ábyrgð okkar í loftslagsmálum. Eitt allra áhrifaríkasta tæki til að sporna við þeim breytingum sem við sjáum með hlýnun loftslags er einmitt samgöngumálin, að breyta á róttækan hátt ferðavenjum fólks.

Samgönguráðherra hefur boðað stórátak í samgöngumálum og vissulega eru mikilvægar upphæðir lagðar inn í viðhaldsþörf vegakerfisins. Þar er mikilvægt og gott framlag sem fram kemur í fjármálaáætluninni fyrir næstu fimm árin.

En mig langar til þess að fá fram hjá hæstv. samgönguráðherra hvort hann deili þeirri sýn með mér, og vonandi fleirum, að efla þurfi almenningssamgöngur mun meira en gert er í fjármálaáætluninni og að áherslan þurfi að vera skýrari þegar kemur að eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem 75–80% allrar bílaumferðar á landinu er.

Mig langar að spyrja líka í því ljósi að það er viljayfirlýsing um að eiga samstarf við sveitarfélögin um borgarlínuna hvort við þurfum að fara að spýta svolítið vel í lófana þegar kemur að því og reyna að setja meiri þunga og hraða inn í þá framkvæmd. Auðvitað snýst þetta alltaf um peninga, en sér samgönguráðherra fyrir sér meiri þunga á þennan (Forseti hringir.) hluta fjármálaáætlunarinnar en undirrituð hefur viljað sjá?