149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þakka sömuleiðis þakkir hennar fyrir að ég sé með ykkur í kvöld. Mér finnst líka óskaplega gaman að vera hérna. Loðnubresturinn er mikið áfall, en þannig ganga hlutirnir oft fyrir sig í þessari atvinnugrein. Við ráðum illa við náttúruna sjálfa og sveiflan, sérstaklega í uppsjávarveiðinni, er þekkt. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Við þekkjum kannski minna til atferlis, vistfræðinnar, þessara stofna en botnfisksins, það kann að vera. Loðnan er miklu kvikari stofn. Þetta hefur komið fyrir áður. Mig minnir að síðast hafi þetta verið uppi 2009. Þetta er erfitt, vissulega, en ég hef svarað því þannig að greinin sjálf þurfi að bera þetta vegna þess einfaldlega að það er í raun ekki af öðru að taka, alla vega ekki í þessum hefðbundnu fiskstofnum. Við erum að nýta útgefnar aflaheimildir í þessum stærstu nytjastofnum okkar, þær eru allar í toppi þeirra aflareglna sem við styðjumst við, Íslendingar, á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar, þannig að það er ekkert svigrúm þar inni. Það er helst í einhverja stofna sem hv. þingmaður nefnir, eins og gulldeplu og annað, sem menn geta sótt, vegna þess að við erum ekki með neinar takmarkanir í því. En þeir stofnar gefa bara ekki neina afkomu.

Veruleikinn eins og hann liggur fyrir núna er einfaldlega sá að þær útgerðir sem undir heyra verða að taka niðursveiflunni þegar hún er og uppsveiflunni þegar hennar nýtur við.