149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1217, máli 766. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Þetta varðar innflutning búfjárafurða.

Ég vil í upphafi ræðu minnar rekja stuttlega forsögu þessa máls áður en farið verður yfir þær breytingar sem frumvarpið kveður á um.

Við gildistöku EES-samningsins hinn 1. janúar 1994 var Ísland undanþegið reglum I. viðauka samningsins varðandi dýra- og plöntuheilbrigði. Hinn 1. janúar 1997 tóku gildi endurskoðaðar reglur á þessu sviði sem leiddu til þess að Ísland hefði að óbreyttu talist þriðja ríki varðandi útflutning á sjávarafurðum til Evrópusambandsins. Það hefði kallað á umfangsmiklar sýnatökur og kostnað. Slík breyting hefði haft verulega skaðleg áhrif á útflutning íslenskra matvæla og því var ákveðið að hefja viðræður um endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. viðauka. Þeim viðræðum lauk með því að Ísland gekkst undir þær gerðir sem vörðuðu sjávarafurðir en hélt undanþágu sinni varðandi búfjárafurðir.

Í febrúar árið 2002 tók ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins gildi en hún fól m.a. í sér að sá aðskilnaður sem áður var milli mismunandi framleiðslugreina, þar með talið búfjárafurða og sjávarafurða, var felldur úr gildi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fór fram á að Ísland tæki þessa löggjöf upp með heildstæðum hætti í EES-samninginn þar sem ekki væri lengur unnt að innleiða þessar reglur þannig að þær tækju einungis til sjávarafurða.

Það var svo árið 2005 sem íslensk stjórnvöld samþykktu að hefja viðræður um upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn. Skilyrði Evrópusambandsins fyrir þeim viðræðum var að svokölluð leyfisskylda yrði felld niður en í henni felst að óheimilt er að flytja inn kjöt, egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur til landsins nema með sérstakri heimild Matvælastofnunar. Með beiðni um innflutningsleyfi vegna kjöts þarf að fylgja vottorð um að það hafi verið geymt við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.

Í viðræðum um upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn var af hálfu Íslands sett það eina skilyrði að Ísland myndi ekki gefa eftir bann við innflutningi lifandi dýra. Í júní 2006 samþykkti þáverandi ríkisstjórn drög að samkomulagi um upptöku matvælalöggjafarinnar í EES-samninginn þar sem m.a. var gert ráð fyrir að frystiskyldan yrði felld niður. Samkomulag þetta var síðan endanlega staðfest af hálfu ríkisstjórnarinnar árið 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Árið 2008 lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í tvígang fram frumvarp á Alþingi til að leiða matvælalöggjöf ESB í lög. Þau frumvörp voru í samræmi við það samkomulag sem íslensk stjórnvöld höfðu gert við ESB og sameiginlega EES-nefndin hafði samþykkt. Í frumvarpinu var, í samræmi við fyrrgreindar skuldbindingar, kveðið á um afnám leyfisveitingakerfisins en hvorugt frumvarpanna náði fram að ganga á Alþingi. Á milli þinga árið 2008 var leitað álits frá dönskum lögmanni og sérfræðingi í Evrópurétti um möguleika Íslands til að takmarka innflutning á ófrystu kjöti. Niðurstaða hans var afdráttarlaus hvað kerfisbundið eftirlit með innfluttu kjöti frá öðru EES-ríki varðar. Slíkt eftirlit væri óheimilt þótt ekkert kæmi í veg fyrir að íslensk stjórnvöld gerðu skyndiskoðun á innflutningi.

Árið 2009 lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svo fram sambærilegt frumvarp sem þó hafði tekið nokkrum breytingum og þeim er þannig lýst í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti og hráum eggjum samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið.“

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi hinn 18. desember 2009 og hefur leyfisveitingakerfið verið óbreytt síðan þá. Með þeirri samþykkt staðfesti Alþingi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins og við gildistöku laganna 1. mars árið 2010 hófst fyrrgreindur 18 mánaða aðlögunarfrestur íslenskra stjórnvalda að matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Hinn 1. nóvember 2011 gilti matvælalöggjöfin að fullu gagnvart Íslandi.

Árið 2011 sendu Samtök verslunar og þjónustu kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, þar sem kvartað var yfir innflutningsbanni á ófrystu kjöti. Töldu samtökin að bannið bryti í bága við skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum. Að undangengnum formlegum bréfaskriftum við Eftirlitsstofnun EFTA vegna málsins var niðurstaða stofnunarinnar sú að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum.

Árið 2014 höfðaði fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. dómsmál gegn íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum. Í málinu óskaði Héraðsdómur Reykjavíkur eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum. Í álitinu kom fram sú afstaða dómstólsins að íslensk löggjöf samræmdist ekki ákvæðum EES-samningsins. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var efnislega samhljóða áliti EFTA-dómstólsins og í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða „vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda.“ Var íslenska ríkið dæmt til að greiða Ferskum kjötvörum ehf. skaðabætur.

Eftir uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur vísaði ESA samningsbrotamálunum áfram til EFTA-dómstólsins. Dómur EFTA-dómstólsins lá fyrir 14. nóvember 2017 og komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði brotið gegn skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.

Tæpu ári eftir að dómur EFTA-dómstólsins var kveðinn upp staðfesti Hæstiréttur Íslands niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Hæstiréttur komst þannig að þeirri niðurstöðu að leyfisveitingakerfi í tengslum við innflutning á kjöti og eggjum og krafa um frystingu kjöts bryti í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og þá var skaðabótaskylda íslenska ríkisins staðfest.

Á þeim fimm mánuðum sem hafa liðið frá því að dómur Hæstaréttar Íslands féll í málinu hefur verið látið á það reyna að flytja inn ófryst kjöt sem Matvælastofnun hefur hafnað í samræmi við gildandi löggjöf. Í ljósi þess að málsatvik hafa verið með sambærilegum hætti og í fyrrgreindu máli Hæstaréttar hefur ríkislögmaður metið það sem svo að ekki væri annað að gera en að ljúka málunum með sátt og greiðslu skaðabóta. Á meðan óbreytt réttarástand ríkir má gera ráð fyrir að fleiri slík mál komi upp, enda íslensk stjórnvöld skaðabótaskyld gagnvart hverjum þeim aðila sem reynir að flytja hingað til lands ófrystar kjötvörur. Því skal haldið til haga í þessu sambandi að fjárhæð skaðabóta eru engin takmörk sett.

Loks má geta þess að staða málsins í dag er með þeim hætti að Eftirlitsstofnun EFTA sendi hinn 13. febrúar sl. rökstutt álit til íslenskra stjórnvalda. Þar kemur fram að ESA geti sent málið til EFTA-dómstólsins ef stjórnvöld bregðast ekki við álitinu fyrir 13. apríl nk., þ.e. eftir tæpar tvær vikur.

Virðulegi forseti. Frá því í desember 2017 hafa íslensk stjórnvöld undirbúið aðgerðir til að bregðast við þeim dómum sem nú liggja fyrir og hafa m.a. átt í viðræðum við ESA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í febrúar sl. átti hæstv. utanríkisráðherra Íslands fund með Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Í máli hennar kom fram að EFTA-dómstóllinn hefði kveðið upp dóm í málinu sem Íslandi beri að hlíta með því að breyta löggjöf sinni.

Í síðustu viku átti ég fund með Andriukaitis, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði heilbrigðis og matvæla. Á þeim fundi gerði ég grein fyrir því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir og þeirri aðgerðaáætlun sem lögð hefur verið fram, m.a. þeirri kröfu að innflutt alifuglakjöt fullnægi sömu kröfum og gerðar hafa verið til innlendrar framleiðslu undanfarna tvo áratugi. Þá vísaði ég til þess á fundinum að sjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna væri sérlega góð í samanburði við önnur ríki og gerði grein fyrir átaki íslenskra stjórnvalda til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi sem hófst í febrúar sl. Loks má nefna að við Andriukaitis sammæltumst um að styrkja samstarf Íslands og Evrópusambandsins varðandi aðgerðir gegn bæði kampýlóbakter og sýklalyfjaónæmum bakteríum.

Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er skýrt. Íslensk stjórnvöld ætla að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og tryggja þannig stöðu landsins á innri markaði EES-svæðisins. Með því eru íslensk stjórnvöld jafnframt að virða og fara eftir skýrum dómum Hæstaréttar Íslands og EFTA-dómstólsins. Samhliða þessu er öryggi matvæla og vernd búfjárstofna treyst enn frekar, auk þess sem gripið er til aðgerða til að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þremur lagabálkum og rétt þykir að fjalla efnislega nánar um helstu breytingar.

Lagt er til að núverandi leyfisveitingakerfi vegna kjöts og eggja verði afnumið. Eins og ég hef ítrekað rakið hér í dag er afnám leyfisveitingakerfisins nauðsynlegt til að bregðast við dómum Hæstaréttar Íslands og EFTA-dómstólsins. Ég vek þó athygli á því að með frumvarpinu eru ekki gerðar breytingar á skilyrðum á innflutningi umræddra landbúnaðarafurða sem upprunnar eru utan EES.

Fyrir liggur að krafan um frystingu kjöts hefur í för með sér tvo meginkosti. Annars vegar getur 30 daga biðtími verið vörn gegn því að sjúkdómar eða sýktar afurðir berist hingað til lands, en ekki er kunnugt um tilfelli hér á landi undanfarna áratugi þar sem þessi frestur hefur haft þýðingu. Við þessu er engu að síður brugðist í frumvarpinu með tilteknum aðgerðum. Hins vegar minnkar frysting magn kampýlóbakter í alifuglakjöti en hefur lítil áhrif á aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eða sýklalyfjaónæmar bakteríur. Rétt er að fjalla nánar um þetta atriði, enda er um að ræða stærstu áskorun sem við hefur blasað í undirbúningi þessa máls.

Ísland býr við þá öfundsverðu stöðu að tíðni kampýlóbaktersýkinga er sú lægsta í Evrópu. Ástæðan er sú að við erum með mjög öflugt eftirlit með innlendri framleiðslu alifuglakjöts.

Íslensk stjórnvöld hafa svigrúm til þess að setja reglur að landsrétti um kampýlóbakter þar sem samræmd löggjöf innan ESB er ekki fyrir hendi. Með vísan til þessa er í frumvarpinu bætt við ákvæði í lög um matvæli sem kveður á um bann við dreifingu ómeðhöndlaðra sláturafurða alifugla á markaði nema sýnt sé fram á gagnvart opinberum eftirlitsaðilum að staðfest hafi verið með sýnatöku á eldistíma eða við slátrun að ekki hafi greinst kampýlóbakter í fuglunum. Samkvæmt frumvarpinu skal með reglugerð nánar skilgreina hvað felst í meðhöndlun í skilningi ákvæðisins.

Með þessari ráðstöfun verður sterk staða Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbaktersýkingum tryggð. Skilaboðin eru því skýr, íslensk stjórnvöld ætla með þessum nauðsynlegu breytingum að standa vörð um sterka stöðu Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbaktersýkingum.

Með frumvarpinu er bætt við ákvæði í lög um matvæli sem heimilar Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn fyrrgreindu banni á dreifingu alifuglakjöts. Með lögfestingu ákvæðisins verður lögð áhersla á ábyrgð matvælafyrirtækja við að tryggja að matvæli sem eru markaðssett séu örugg og uppfylli kröfur sem gerðar eru vegna varna gegn kampýlóbakter. Í ákvæðinu er vikið að þeim sjónarmiðum sem opinberum eftirlitsaðilum ber að leggja til grundvallar ákvörðun um álagningu sektar.

Með frumvarpinu er enn fremur lagt til að bætt verði við ákvæði í lög um matvæli sem heimilar ráðherra að fela Matvælastofnun að annast framkvæmd sýnatöku hjá matvælafyrirtækjum að fenginni tillögu stofnunarinnar. Þessar sýnatökur eru fjármagnaðar af ríkissjóði og byggjast á sýnatökuáætlun Matvælastofnunar og hafa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga annast sýnatökur sem fram fara í smásölu, enda lögbært yfirvald með fyrirtækjum samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um matvæli.

Auk þess er með frumvarpinu gerð breyting á ákvæði 27. gr. laga um matvæli þar sem núgildandi ákvæði er þrengra en samsvarandi ákvæði tilskipunar nr. 89/662. Samkvæmt núgildandi ákvæði í lögum um matvæli eru skyndiskoðanir og sýnataka einungis heimilar ef rökstuddur grunur er til staðar um að matvælin séu heilsuspillandi eða óhæf til neyslu eða geti valdið dýrasjúkdómum. Með hliðsjón af efni tilskipunarinnar er ákvæðinu breytt þannig að tryggt sé að Matvælastofnun geti sinnt eftirliti í báðum þessum tilvikum en ekki einungis þegar rökstuddur grunur er til staðar. Það er mikilvægur þáttur í að tryggja öryggi matvæla sem dreift er hér á landi.

Að lokum vil ég nefna að með frumvarpinu er bætt við lög um matvæli og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru heimild til ráðherra til að vísa til erlendrar frumútgáfu reglugerða við innleiðingu reglugerða ESB sem teknar eru upp í EES-samninginn með einfaldri málsmeðferð. Breytingunum er ætlað að tryggja að ESB-gerðir öðlist gildi hér á landi á tilsettum tíma þegar ekki tekst að þýða þær í tæka tíð. Þannig verði sett reglugerð þar sem vísað er til birtingar á ESB-gerð á ensku en þegar þýðingin er tilbúin verði sett ný reglugerð þar sem þýðingin er birt í viðauka og eldri reglugerð felld brott. Með þessu móti er tryggt að reglur um innflutning dýraafurða frá þriðju ríkjum séu uppfærðar í tæka tíð til að koma megi í veg fyrir innflutning afurða sem ekki eru taldar öruggar.

Virðulegi forseti. Verði frumvarp þetta að lögum hefur það óveruleg en jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs líkt og nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu. Þá má geta þess að ráðuneytið óskaði eftir því við Daða Má Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að hann ynni álitsgerð um efnahagsleg áhrif frumvarpsins. Í niðurstöðu hans kemur fram að að teknu tilliti til núverandi markaðshlutdeildar innflutnings og þróunar síðari ár, sértækri eftirspurn eftir innlendri framleiðslu og staðkvæmd ferskra og frosinna kjötvara, virðist ólíklegt að fyrirhugaðar breytingar hafi umfangsmiklar afleiðingar fyrir innlenda framleiðslu umfram það sem ætla má að yrði miðað við þróun undangenginna ára. Sérstaklega virðist ósennilegt að mikill samdráttur verði í seldu magni innlendrar framleiðslu ef verðlækkun verður á ferskum afurðum í kjölfar lagabreytingarinnar. Þá kemst hann að þeirri niðurstöðu að verði frumvarpið að lögum muni heildarsamdráttur í tekjum innlendra framleiðenda landbúnaðarafurða verða á bilinu 500–600 millj. kr. á ári á meðan aðlögun að nýju markaðsjafnvægi stendur yfir.

Ábati neytenda af frumvarpinu er töluverður, tæpar 900 millj. kr. á ári að mati Daða Más. Í því sambandi vísar hann til reynslu þess að aflétta innflutningstakmörkunum þegar tollar voru felldir niður á tómötum, gúrkum og paprikum árið 2002. Markaðshlutdeild innlendra framleiðenda dróst saman til skamms tíma en viðsnúningur varð í framleiðslu garðyrkjubænda. Á rúmum áratug óx framleiðsla þessara tegunda um 60% á meðan vöxtur á framleiðslu annarra tegunda var aðeins 5%. Aukningin varð ekki síst vegna þess að íslenskum framleiðendum tókst að skapa sér samkeppnisforskot á innflutt grænmeti vegna betri merkinga um uppruna innlendu framleiðslunnar. Að mati Daða Más bendir þetta til þess að umtalsverð sértæk eftirspurn sé meðal íslenskra neytenda eftir þeim eiginleika vöru að hún sé framleidd hér á landi. Sambærilegar niðurstöður megi finna í öðrum rannsóknum, t.d. frá Noregi.

Frá upphafi þeirrar vinnu sem birtist í þessu frumvarpi og fyrrgreindri aðgerðaáætlun hefur verið skýrt að þetta mál snýst ekki einungis um að framfylgja niðurstöðu dómstóla. Þetta er á þann veg ekki einfalt lagatæknilegt mál. Stærstur hluti þeirrar vinnu sem ég hef gert hér að umtalsefni hefur falist í því að móta umfangsmikla aðgerðaáætlun sem gengur eins langt til að tryggja enn frekar öflugar varnir fyrir öryggi matvæla og búfjárstofna og unnt er, en jafnframt í að bæta samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda. Samhliða framlagningu þessa máls er umrædd aðgerðaáætlun því lögð fram en í henni eru 15 aðgerðir. Hluti þeirra snýr beint að afnámi leyfisveitingakerfisins en öðrum er almennt ætlað að stuðla að þeim markmiðum sem ég nefndi áðan. Ég tel óþarft að rekja allar aðgerðirnar í löngu máli en rétt er að gera grein fyrir hluta þeirra.

Fyrsti hluti aðgerðaáætlunarinnar af þremur snýr að lýðheilsu og vernd búfjárstofna. Þar er m.a. að finna aðgerðir er lúta að salmonellu og svokölluðum viðbótartryggingum. Hinn 4. júlí 2018 óskaði ráðuneytið eftir því við Eftirlitsstofnun EFTA að fá viðbótartryggingar vegna kjúklinga- og kalkúnakjöts og eggja. Var sú beiðni samþykkt í upphafi þessa árs og er íslenskum stjórnvöldum því heimilt að gera kröfu um að vottorð um sýnatöku og rannsókn á salmonellu fylgi hverri sendingu af fyrrgreindum afurðum. Þegar er unnið að því að óska eftir því við ESA að Ísland njóti viðbótartrygginga vegna svínakjöts og nautakjöts líkt og Noregur, Finnland og Svíþjóð hafa nú þegar fengið. Á fundi mínum með ESA í síðustu viku gerði ég grein fyrir þessari vinnu sem er í forgangi hjá ráðuneytinu.

Jafnframt er í þessum fyrsta hluta aðgerðaáætlunarinnar gerð grein fyrir ráðstöfunum varðandi kampýlóbakter sem birtast í frumvarpinu og ég vék að fyrr í ræðu minni. Þá má nefna að sett verður á fót áhættumatsnefnd en mælt er fyrir um skipan hennar í lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Hlutverk nefndarinnar er að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru.

Í umræðu um afnám frystiskyldunnar hafa komið fram áhyggjur sem tengdar hafa verið sýklalyfjaónæmi. Vegna þessa hefur ráðuneytið leitað ráðgjafar hjá bæði yfirdýralækni og sóttvarnalækni. Telja þau að afnám frystiskyldunnar muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og mótvægisaðgerðir þær sem tilgreindar eru í aðgerðaáætluninni muni minnka áhættuna. Engu breyti hvort kjöt sé ferskt eða frosið þegar kemur að sýklalyfjaónæmi. Afnám frystiskyldunnar muni því ekki eitt og sér hafa áhrif á sýklalyfjaónæmi hér á landi.

Árið 2017 skilaði starfshópur hæstv. heilbrigðisráðherra tillögum um varnir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Hinn 8. febrúar sl. undirrituðum við hæstv. heilbrigðisráðherra yfirlýsingu þar sem fram kemur að tillögur hópsins muni marka opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Strax eftir undirritun yfirlýsingarinnar var skipaður stýrihópur með yfirdýralækni, sóttvarnalækni og fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Hlutverk hópsins er að framfylgja stefnu stjórnvalda í málaflokknum og þessi vinna er hluti af fyrrgreindri aðgerðaáætlun.

Annar hluti áætlunarinnar snýr að aukinni fræðslu. Matvælastofnun vinnur nú að því að undirbúa áætlun um kynningu og fræðslu til ferðamanna varðandi innflutning afurða úr dýraríkinu en slík vinna hefur verið fjármögnuð. Talið er að hætta sé á að sjúkdómsvaldar flytjist til landsins með matvælum og klæðnaði ferðafólks. Sú hætta er þegar til staðar og því mikilvægt að farþegar til landsins fái fræðslu um góða sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna og hversu viðkvæmir þeir eru fyrir nýju smiti. Þannig sé brýnt fyrir fólki sem hingað kemur, jafnt Íslendingum sem erlendum ferðamönnum, hvað beri að varast varðandi matvæli og klæðnað, svo sem alþekkt er í löndum sem hafa hliðstæðar áherslur að þessu leyti til.

Þriðji og síðasti hluti áætlunarinnar snýr að bættri samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu og þar er að finna sex aðgerðir.

Í fyrsta lagi má nefna að ráðgert er að setja á fót matvælasjóð með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.

Í öðru lagi vil ég nefna að í febrúar 2018 skipaði ég starfshóp til að móta innkaupastefnu opinberra aðila á sviði matvæla. Drög að slíkri stefnu voru birt á samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku.

Í þriðja lagi má geta þess að hinn 1. febrúar sl. var undirritað samkomulag um þátttöku í átaki um betri merkingar matvæla. Aðilar samkomulagsins eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Markmið átaksins er að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla. Hlutverk hópsins er að hafa með höndum skipulag og umsjón með átaksverkefni um merkingar og hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Í fjórða lagi vil ég nefna að unnið er að matvælastefnu fyrir Ísland.

Loks má nefna tvær aðgerðir sem bætt var við eftir ábendingar í samráðsgátt stjórnvalda. Annars vegar komu fram ábendingar um að ekki sé til staðar tryggingasjóður sem bændur geti leitað til vegna mögulegs tjóns á búfé. Í því samhengi er rétt að vísa til þess sem kemur fram í ráðgjöf yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis til ráðuneytisins, að með vísan til aðgerðaáætlunar ráðuneytisins telji fyrrgreindir sérfræðingar að afnám frystiskyldunnar muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og að aðgerðirnar muni minnka áhættuna. Þrátt fyrir það hyggst ráðuneytið taka til skoðunar hvort forsendur séu fyrir því að slíkur sjóður skuli settur á. Hins vegar komu fram ábendingar í samráðsferli um að mikilvægt sé að endurskoða tollvernd. Í því sambandi hyggst ráðuneytið taka þróun tollverndar til skoðunar.

Virðulegi forseti. Nokkur umræða hefur verið um áhrif þeirra breytinga sem frumvarpið kveður á um á öryggi matvæla og vernd búfjárstofna. Sú umræða var á köflum, leyfi ég mér að segja, ekkert sérstaklega hófstillt og fór um víðan völl. Því lagði ég áherslu á að leitað yrði ráðgjafar frá óháðum sérfræðingum varðandi þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu og það hefur verið gert. Þannig hefur ráðuneytið haft samráð við fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga, m.a. yfirdýralækni og sóttvarnalækni. Laut ráðgjöf þeirra annars vegar að áhrifum á öryggi matvæla og hins vegar að vernd búfjárstofna en ég tel rétt að reifa niðurstöður þeirra í stuttu máli.

Varðandi öryggi matvæla má skipta þeirri umfjöllun í þrjá flokka, þ.e. salmonellu, sýklalyfjaónæmar bakteríur og kampýlóbakter. Varðandi salmonellu er það niðurstaða yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis að viðbótartryggingar vegna kjúklinga- og kalkúnakjöts og eggja viðhaldi öryggi hvað salmonellu varðar. Ekki sé hins vegar hægt að draga ályktanir um hvort aukin hætta verði vegna svína-, nauta- og andakjöts, enda ekki til fullnægjandi upplýsingar hér á landi. Í öðru lagi varðandi sýklalyfjaónæmar bakteríur má vísa til þess sem ég vék að fyrr í ræðu minni, þ.e. að það breyti engu hvort kjöt sé ferskt eða frosið með tilliti til sýklalyfjaónæmis og því ekki talið að afnám frystiskyldu muni ein og sér hafa áhrif á sýklalyfjaónæmi hér á landi. Loks í þriðja lagi varðandi kampýlóbakter er það niðurstaða yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis að með því að viðhalda gildandi fyrirkomulagi í innlendri framleiðslu og að erlend framleiðsla alifuglakjöts lúti sömu reglum og gilt hafa hér á landi í tvo áratugi megi færa fyrir því rök að engin breyting verði á kampýlóbaktersmiti í fólk frá alifuglakjöti.

Varðandi vernd búfjárstofna er það niðurstaða yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis að afnám frystiskyldunnar muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og mótvægisaðgerðirnar muni minnka áhættuna. Sú niðurstaða er raunar í samræmi við umsögn Dýralæknafélags Íslands sem skilað var inn í samráðsgátt en þar kemur fram að það sé hverfandi, ef nokkur, áhætta af fersku kjöti á móti því frosna sem þegar er flutt inn.

Virðulegur forseti. Nú eru liðin tæp 14 ár frá því að íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að hefja viðræður um mögulega upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins. Það eru liðin tíu ár, áratugur, frá því að Alþingi staðfesti þá skuldbindingu að innleiða matvælalöggjöfina og fella niður fyrrgreint leyfisveitingakerfi. Niðurstaða dómstóla er skýr; íslensk stjórnvöld hafa ekki staðið við sínar skuldbindingar. Þau brot eru sögð vísvitandi og alvarleg. Staða málsins í dag er annars vegar ótakmörkuð skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna innflutnings á ófrystu kjöti. Þetta þýðir að hver sem reynir að flytja inn ófrosið kjöt og er stöðvaður getur fengið fyrir það skaðabætur frá íslenska ríkinu en fjárhæð skaðabóta eru engin takmörk sett. Hins vegar eru afleiðingar á vettvangi EES-samstarfsins en Ísland þarf að svara rökstuddu áliti ESA fyrir 13. apríl og vísast nánar til umfjöllunar í greinargerð um mögulegar afleiðingar þessa.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir hefur það að meginmarkmiði að hætta þessum brotum en um leið að tryggja öryggi matvæla, vernd búfjárstofna og að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Jafnframt ætlum við að auka vöruúrval íslenskra neytenda og treysta þeim til að taka upplýsta ákvörðun um sín innkaup. Í stað þess að setja upp hindranir og múra setjum við upp eðlilegar, réttmætar og ábyggilegar varnir.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.