149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:34]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Rökstuðningurinn er m.a. í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar, sem hv. þingmaður kýs að líta fram hjá. Hann er með valkvætt minni eða valkvætt eitthvað þegar kemur að álitsgerðinni. Sumt hugnast honum en annað hugnast honum ekki og þá kýs hann að líta fram hjá því, alveg fullkomlega.

Það sem við erum að fást við í dag er akkúrat í anda þeirrar álitsgerðar sem hér liggur fyrir. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því. Ég hef þá misskilið hv. þingmann þegar hann talar um að hann eigi ekki við þjóðréttarlega skuldbindingu þegar kemur að lagningu sæstrengs. Hvers er hann þá að vitna til? Hvar er hin þjóðréttarlega skuldbinding sem hann hræðist svo, önnur en sú að við undirgöngumst auðvitað ákveðnar skyldur þegar kemur að því að taka þátt í samstarfi þjóða? (Forseti hringir.) Það eru auðvitað ákveðnar skyldur (Forseti hringir.) sem við undirgöngumst þegar við eigum samstarf við aðrar þjóðir. (Forseti hringir.) Vonandi er þingmaðurinn ekki ósammála því.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir ræðumenn á að halda ræðutíma.)