149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki misskilið og vona að ég hafi ekki gefið í skyn að hv. þingmaður væri þeirrar skoðunar að eftirlitsiðnaðurinn eða eftirlitsaðilar ættu að vera í því að nappa menn. Það er fjarri mér. Hv. þingmaður hélt því alls ekki fram, þannig að það sé sagt.

Vandinn er sá að hann er dálítið vandrataður, vegurinn á milli þess að hafa eftirlit með ákveðinni starfsemi og hafa síðan völd til að stoppa starfsemina. Það eru engin smávöld og ég er ekki alveg viss um að ég sé tilbúinn til að afhenda einhverjum einum aðila, jafnvel einum einstaklingi, forstöðumanni viðkomandi stofnunar, alveg sama hversu traustur hann er, þau völd að taka ákvörðun um það að ganga inn í fyrirtæki og stöðva rekstur þess. Ég held að það sé vald sem við viljum aldrei afhenda einhverri stofnun eða einhverjum einstaklingi. Ég geri mér grein fyrir vandanum sem við er að glíma en ég hygg hins vegar að ef við færum þá leið væri kostnaðurinn meiri en ávinningurinn. Ég verð því ekki talsmaður þess að gera það þannig. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að þetta er vandamál en stundum er það svo í mannheimum að vandamál eru þannig að við verðum að lifa við þau þangað til við finnum lausn sem er viðunandi og gengur ekki gegn hugmyndum okkar um atvinnufrelsi og frelsi einstaklingsins o.s.frv. Það að til greina komi að stofnun eða einstaklingur geti setið í sæti sínu og ákveðið að þetta fyrirtæki skuli núna stöðva rekstur (Forseti hringir.) hygg ég að sé ekki góð hugmynd.