149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

417. mál
[21:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þessa vinnu sem ég sé að hefur verið mjög ítarleg og ég ætla líka að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir mjög ítarlega framsögu á þessu nefndaráliti. Ég held að í grunninn sé hér um mjög gott mál að ræða og eins og framsögumaðurinn kom inn á er þetta til komið í kjölfar #metoo-byltingarinnar og þeirra hræðilegu sagna sem við fengum um stöðuna hjá íþróttafélögum.

Mig langaði bara að koma hingað upp og hrósa nefndinni sérstaklega fyrir kaflann um samráð við börn og ungmenni. Mér finnst það algerlega til fyrirmyndar að nefndin hafi kallað eftir slíku samráði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingnefndir geri meira af þessu. Auðvitað eigum við að gera það alls staðar og líka í Stjórnarráðinu. Þá er líka mjög mikilvægt að það sé ekki það sem hægt er að kalla einhvers konar sýndarsamráð heldur raunverulegt samráð þar sem börn og ungmenni fá rödd og fá að hafa skoðanir á málunum.

Það sem mig langaði að nefna, og ég beini því kannski bara til þeirra fulltrúa sem hér eru í salnum og sitja í allsherjar- og menntamálanefnd, lýtur að sakavottorðum. Hv. þm. Willum Þór Þórsson fór ágætlega yfir það að nefndin leggur til breytingartillögu til samræmis við æskulýðslögin og ég tel það gott. Ég velti því engu að síður fyrir mér, virðulegur forseti, og hef nefnt það líka þegar við höfum rætt málefni tengd skólunum, hvort þessu sé í öllum tilfellum framfylgt, þrátt fyrir heimildina í lögunum, þ.e. hvort kallað sé eftir sakavottorði þegar starfsmenn eru ráðnir inn, hvort sem það er í leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða hjá íþróttafélögunum eða þeim félögum sem falla undir æskulýðslögin.

Þá langar mig líka að velta því upp að ef kallað er eftir sakavottorði en viðkomandi aðili brýtur af sér meðan hann er í starfi gagnvart þeim ákvæðum í hegningarlögunum sem við erum að vísa sérstaklega í, hvort það sé örugglega ferli í gangi sem láti þá viðkomandi stofnun vita af því. Vegna þess að það er komið aðeins inn á samráðið við dómsmálaráðuneytið og ríkissaksóknara og það er góð árétting hjá nefndinni að leggja áherslu á mikilvægi samráðs um þessa þætti. Þá held ég að sé mikilvægt að við höldum þessu á lofti og tryggjum að þessu sé ávallt fylgt eftir. Og ef viðkomandi starfsmenn brjóti af sér séu skýr skilaboð sem skili sér inn til viðkomandi félaga — eða skóla, það getur líka átt við í þeim tilfellum.