149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Ég vil byrja á því sem hv. þingmaður endaði á, þ.e. tillögu flokks hans um grænan samfélagssáttmála. Ég tel það hugsun sem við eigum öll að taka fyrir hér á Alþingi, hvernig við getum samþætt stefnumótun okkar í loftslagsmálum við allt annað sem við gerum. Nú síðast á fundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins var rætt um nýtt þjóðhagsráð, sem koma á á laggirnar í tengslum við kjarasamninga og vonandi mun það gefast vel. Hugsunin hefur hingað til verið sú að ræða sérstaklega um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika en þarna var líka rætt um að umhverfismálin yrðu að vera hluti af þeirri umræðu. Gallinn hefur verið sá, og þar tek ég undir með hv. þm. Loga Einarssyni, að umhverfismálin hafa verið sérmálefni, ekki rædd í samhengi við aðra þætti. Þegar við ræðum um atvinnustefnu, þegar við ræðum um efnahagsstefnu eða ríkisfjármálastefnu verðum við að hafa umhverfismálin undir. Meðal annars þess vegna er mín ríkisstjórn að leggja stóraukna áherslu á þennan málaflokk.

Er nóg að gert? spyr hv. þingmaður. Við sögðum, þegar við kynntum aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum, að hún yrði að vera til stöðugrar endurskoðunar af því að þróunin er hröð í þessum málaflokki. Við vitum að þó að okkar markmið séu metnaðarfull á alþjóðavísu þá breytist þessi umræða mjög hratt. Nú höfum við sett okkur markmið um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Fyrstu aðgerðirnar í að ná því markmiði eru orkuskipti í samgöngum. Þar sjáum við miklar breytingar nú þegar sem eru m.a. afleiðing þeirra ívilnana sem hafa verið leiddar í lög gagnvart rafknúnum ökutækjum og ökutækjum sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Nýskráningar slíkra bíla, þegar við horfum til heimilanna í landinu, eru 20%. Við þurfum að ná því hlutfalli mjög hratt upp. Norðmenn eru þarna á undan okkur og við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess hvernig við getum gert þetta hratt og það gerum við m.a. með innviðauppbyggingu. Ég kem nánar að því í mínu seinna svari.