149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra tekur undir með þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar — og þess vegna Pírata — enda er þetta mál sem á ekki að vera í skotgröfum milli ólíkra flokka á þingi. Við þurfum einmitt að fara að hugsa þetta samþætt, kannski í anda kynjaðrar hagstjórnar, þar sem allt er samofið þessum málum.

En, herra forseti, þetta snýst ekki bara um loftslagsímynd. Þetta snýst um loftslagsaðgerðir, ekki umbúðir heldur aðgerðir. Í fjármálaáætluninni er vissulega fjallað um hringrásarhagkerfið en ég sé enga heildstæða nálgun og ekki neina áætlun um að ná sátt og samvinnu. Það eru með öðrum orðum ekki boðaðar neinar róttækar breytingar í fjármálaáætlun.

Auðvitað breytast þessir hlutir dag frá degi og það er sífellt að verða meiri vitundarvakning. Ég skora á ráðherra að hafa þetta í huga þegar fjármálaáætlun verður lögð fram að nýju og verður endurskoðuð.