149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er því miður lenska á Alþingi að beita einhvers konar fundataktík til þess að hafa áhrif á gang mála. Það er staða sem er að mínu mati til komin vegna þess að fundarstjórn er almennt hagað með hagsmuni ríkisstjórnarinnar að leiðarljósi. Það er ekki nýtt mál. Í ljósi þess finnst mér afskaplega mikilvægt að hafa í huga að þegar hv. þingmenn, t.d. Miðflokksins núna, upplifa að ekki sé tekið tillit til þarfa þeirra til umræðunnar þá grefur það undan trausti á fundarstjórn ef ekki eru gefnar skýringar á afbrigðum eins og þeim sem voru veitt í dag. Vel má vera að það séu góðar skýringar fyrir því að þetta mál var tekið af dagskrá en mér finnst mikilvægt að þær berist. Mér finnst hv. þingmenn hafa rétt á því hvort sem þeir eru í Miðflokknum eða einhverjum öðrum flokki. Mér finnst leiðinlegt að svona mál séu drifin áfram á hörkunni, það á ekkert að þurfa. Við getum alveg tekið okkur tíma í að ræða þetta mál, mér finnst það sjálfsagt og mér finnst sjálfsagt að verða við beiðni hv. þingmanna Miðflokksins og annarra (Forseti hringir.) sem hafa nefnt þetta.