149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að segja varðandi stuðningsmenn og stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar að út af fyrir sig er hægt að skilja stuðning að óséðum pakkanum, stuðning Samfylkingar og Viðreisnar. Þessir flokkar hafa í raun og veru ekki nema eitt málefni til að berjast fyrir, það er aðild að Evrópusambandinu. Þeir líta náttúrlega þannig á að með samþykkt þessa orkupakka væri stigið mikilvægt skref í þá átt.

Að sama skapi virðast þeir líta þannig á að synjun af hálfu Íslendinga um að samþykkja ítök erlendra aðila í íslenskar orkuauðlindir í eigu þjóðarinnar gæti með einhverjum hætti truflað leiðina sem þeir vilja fara í Evrópusambandið. Ég get því alveg skilið það og auðvelt er að átta sig á stuðningi þessara aðila.

Ég viðurkenni, herra forseti, að ég þekki engan sem skilur þankagang Píratasafnaðarins og ætla ekki að reyna að skilja hann. En mér er með öllu óskiljanlegt hvernig þeir þrír flokkar sem eiga sér langa og virðulega sögu hér geta yfir höfuð lagt nafn sitt við þennan óskapnað sem liggur fyrir. Þetta mál er algerlega vanbúið, algerlega ófullnægjandi undirbúningur. Það er ótal spurningum ósvarað. Og svo ber við að þeir sem hafa valist til ábyrgðarstarfa á vettvangi þingsins koma í ræðustól og er varla hægt að skilja það öðruvísi en að þeir nenni ekki að sinna því að svara áleitnum spurningum sem eru uppi í þessu máli. Hvílík framganga, herra forseti.